Innlent

Eigandi Monte Carlo ætlar að stefna borginni og lögreglunni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Monte Carlo á Laugarvegi.
Monte Carlo á Laugarvegi.
Margeir Margeirsson, eigandi veitingastaðanna Mónako og Monte Carlo á Laugavegi, ætlar að höfða skaðabótamál gegn lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavík vegna þeirrar ákvörðunar að synja stöðunum um veitingaleyfi. Ákvörðunin var tekin á grundvelli neikvæðrar umsagnar borgarráðs, en innanríkisráðuneytið hefur úrskurðað að með umsögninni hafi borgarráð farið út fyrir umsagnarsvið sitt og með því brotið gegn stjórnsýslulögum. Margeir segist í fréttastofu hafa varið um 10 milljónum króna í lögfræðikostnað vegna málsins.

Borgarráð bókaði á fimmtudaginn að ráðið telur mikilvægt að lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald verði tekin til endurskoðunar á þann hátt að heimildir sveitarfélagsins til að byggja umsagnir sínar á ofangreindum þáttum verði tryggðar. Jónas Örn Jónasson, lögmaður Margeirs, segir aftur á móti að löggjöf í dag sé fullnægjandi varðandi sviðið, þótt framkvæmd sé ábótavant hjá Lögreglu og Reykjavíkurborg. Jónas segir að Reykjavíkurborg hafi gefið neikvæða umsögn í málinu, á grundvelli kvartana sem hafi verið algjörlega órökstuddar og ennfremur „skýrslum" lögreglustjóra þar sem skráð eru mál sem ekkert tengjast veitingastöðunum. Þrátt fyrir að fyrirliggjandi væri að þau mál sem voru skráð í skýrslu lögreglu hefðu ekkert með staðina að gera eða rekstraraðila þess, hafi borgin ákveðið að byggja neikvæða umsögn sína á því.

Þá segist Jónas ítrekað hafa komið athugasemdum á framfæri við Lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, embættið og lögreglustjórann sjálfan, með fjölda bréfa og símleiðis, án þess að brugðist væri við. Einnig hafi á sama hátt verið komið á framfæri athugasemdum við Reykjavíkurborg, Borgarlögmann, lögfræðideild, skrifstofustjóra og borgarráðsfulltrúa, en þeir hafi ekki sinnt því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×