Erlent

Fundu brak rússneskrar farþegaþotu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Mynd/AP
Yfirvöld í Indónesíu segjast hafa fundið brakið af rússneskri farþegaþotu sem fórst í landinu í gær. Vélin, sem kallast Sukhoi Superjet hvarf af radar fimmtíu mínútum eftir flugtak í höfuðborginni Jakarta en vélin var í stuttu kynningarflugi með um fimmtíu manns innanborðs.

Verið var að kynna hana fyrir mögulegum kaupendum og blaðamönnum í Indónesíu en framleiðandinn hafði vonast til að selja Indónesum 42 vélar þessarar gerðar. Ekki er ljóst á þessari stundu hvort einhver hafi komist lífs af. Björgunarleiðangur hefur verið gerður út en brakið er í fjallshlíð eldfjalls í um eins og hálfs kílómetra fjarlægð frá þeim stað þar sem síðast heyrðist frá vélinni.

Sukhoi flugvélaverksmiðjurnar hafa framleitt herflugvélar um margra áratuga skeið en Superjet vélin er fyrsta farþegavélin sem fyrirtækið framleiðir. Vélin tekur 100 manns í sæti og er ætluð til styttri ferða í millilandaflugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×