Erlent

Sá hlær best sem síðast hlær — Innflutningsteiti í kirkjugarðinum

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Mikið hefur verið rætt um stutta tilkynningu Karls nokkurs Albrecht sem birtist í fréttablaðinu Abendblatt fyrr í vikunni. Karl vildi koma því á framfæri að hann væri fluttur og að öllum væri boðið í innflutningsteiti. Karl lést í síðasta mánuði. Teitið mun fara fram í kirkjugarðinum.

Karl, sem var 88 ára þegar hann lést, skrifaði þessa óvanalegu dánartilkynningu nokkrum vikum áður en hann lést. Hann fól ættingjum sínum að birta hana. Í tilkynningunni kemur fram að hann sé fluttur í nýtt leiguhúsnæði og að hann vilji halda líflegan gleðskap til að fagna flutningunum.

„Ég er fluttur," stóð í tilkynningunni. „Nýja heimilisfangið: Kirkjugarðurinn í Olhsdorf-Ruhewald, grafreitur Bx 65/28C."

Anastasia, ekkja Karls, sagði fréttablaðinu Bild að eiginmaður sinn hafi ávallt verið að fíflast og að þetta hafi verið hans allra síðasti brandari. Hún ætlar þó að taka Karl á orðinu.

„Það verður schnapps handa öllum sem mæta. Hann hefði viljað það," sagði Anastasia og bætti við: „Hann hefði einnig viljað að konurnar myndu mæta í litríkum kjólum. Ekki mæta í svörtu. Hann Karl minn þoldi ekki bölmóð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×