Erlent

Grikkir reyna til þrautar

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Evangelos Venizelos hittir leiðtoga hægriflokksins, Antonis Samaras á fundi í dag.
Evangelos Venizelos hittir leiðtoga hægriflokksins, Antonis Samaras á fundi í dag. mynd/ afp.
Grískir stjórnmálamenn reyna nú til þrautar að koma á starfhæfri ríkisstjórn í landinu. Leiðtogi jafnaðarmanna, Evangelos Venizelos hittir leiðtoga hægriflokksins, Antonis Samaras á fundi í dag þar sem freista á þess að mynda samsteypustjórn.

Venizelos er þriðji leiðtoginn á gríska þinginu sem fær það hlutverk að berja saman stjórn eftir söguleg kosningaúrslit um síðustu helgi þar sem tveir stærstu flokkar landsins biðu afhroð og fjöldi smærri flokka koma mönnum á þing. Þessir tveir stóru flokkar voru saman í ríkisstjórninni fram að kosningum en almenningur refsaði þeim harkalega fyrir niðurskurð síðustu missera og kusu í staðinn flokka andsnúna þeim áformum. Þess vegna verður þrautin þyngi að mynda stjórn í landinu og raunar telja margir að nýjar kosningar séu óumflýjanlegar.

Fari viðræðurnar í dag út um þúfur getur forseti landsins beðið stjórnmálamennina um eina tilraun til viðbótar til að mynda stjórn en að því loknu boðar hann til kosninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×