Erlent

Dýrum jarðar hefur fækkað um 30 prósent

Dýrum á jörðinni hefur fækkað um 30 prósent á síðustu fjórum áratugum ef marka má nýja skýrslu um ástand jarðar. Skýrslunni er ætlað að vekja athygli ráðamanna heimsins á vandanum en þeir munu hittast á ráðstefnu í Ríó de Janeiro í sumar þar sem rætt verður um leiðir til að auka sjálfbærni.

Í skýrslunni, sem gefin er út af nátturuverndarsamtökunum World Wildlife Fund, eru teknar saman tölur yfir stöðuna á rúmlega níu þúsund dýrategundum um allan heim og segja skýrsluhöfundar að afar hægt gangi að vernda dýrategundir og að maðurinn verði að gera mun betur í verndunarmálum eigi ekki illa að fara.

Mest er fækkunin hjá dýrum á frumskógarsvæðum og nemur hún um 60 prósentum. Á tempraða beltinu hefur fækkunin verið minni, en þú 30 prósent frá árinu 1970. Verst er staðan hjá vatnadýrum á frumskógarsvæðunum sem hefur fækkað um 70 prósent á sama tíma.

Forstjóri dýrafræðistofnunar Englands hvetur menn til að bregðast við. Hann leggur áherslu á mál sitt með því að benda á að ef hlutabréfamarkaðir tækju viðlíka dýfu, væru allir í áfalli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×