Erlent

Útgöngubann í Kaíró - 300 handteknir í dag

Frá átökum mótmælenda og öryggissveita í dag.
Frá átökum mótmælenda og öryggissveita í dag. mynd/AP
Um 300 manns voru handteknir í Kaíró, höfuðborg Egyptalands, í kjölfar mikilla átaka öryggissveita og mótmælenda í dag. Útgöngubann er nú í gildi í borginni.

Til átaka kom eftir að mótmælendur höfðu safnast saman við varnarmálaráðuneyti Egyptalands í höfuðborginni annan daginn í röð.

Mikil spenna hefur verið í Kaíró síðustu eftir að óþekktir vígamenn réðust á mótmælendur á miðvikudaginn. Að minnsta kosti 20 létust í árásinni.

Mótmælendur saka herforingjastjórnina í Egyptalandi um að hafa brugðist of seint við og segja að dauðsföllin séu á þeirra ábyrgð.

Mótmælandi fyrir utan varnarmálaráðaneyti Egyptalands í Kaíró í gær.mynd/AFP
Breska ríkisútvarpið hefur eftir saksóknara yfirvalda í Egyptalandi að um 300 manns sitji nú gæsluvarðhaldi í Kaíró - þar á meðal eru blaðamenn.

Yfirvöld í Kaíró sögðu seinna í dag að þau væru reiðubúin til að sleppa öllum konum sem handteknar voru úr haldi. Talsmenn mótmælenda gefa þó lítið fyrir ummælin og segja að konur hafi aðeins verið brotabrot af þeim sem handteknir voru í dag.

Yfirmaður herforingjaráðsins, Mohamed Tantawi hermarskálkur, sótti jarðarför hermanns sem lést í átökum við mótmælendur í gær. Hann hefur hvorki tjáð sig um mótmælin í dag né útgöngubannið.

Atburðir síðustu daga þykja afar neyðarlegir fyrir herforingjastjórnina en hún hefur reynt að stuðla að friði í landinu frá því að Hosni Mubarak, fyrrverandi forseti Egyptalands, var steypt af stóli á síðasta ári.

Forsetakosningar eiga að fara fram í landinu eftir þrjár vikur en tveir sigurstranglegustu frambjóðendurnir gerðu hlé á kosningabaráttu sinni eftir að ráðist var á mótmælendurna á miðvikudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×