Erlent

Obama bauð Hollande í heimsókn í Hvíta húsið

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur þegar boðið Francois Hollande nýkjörnum forseta Frakklands í heimsókn í Hvíta húsið á næstu dögum.

Fundur þeirra verður haldinn fyrir toppfund leiðtoga G8 ríkjanna sem halda á í Washington dagana 18. til 19. maí. Obama notaði tækifærið til að bjóða Hollande í heimsókn þegar hann hringdi í hinn nýkjörna forseta í gærkvöldi til að óska honum til hamingju með sigurinn.

Hollande sigraði örugglega í forsetakosningunum en þetta er í fyrsta sinn síðan 1988 að sósíalisti er kosinn forseti Frakklands.

Hollande getur þar að auki búist við meirihluta vinstri flokkanna á þingi en þingkosningar verða haldnar í næsta mánuði. Skoðanakannanir sýna að vinstri flokkarnir fá 44% atkvæða í þeim á móti 32% atkvæðum hægri flokks Nicols Sarkozy og bandamanna hans.

Það verður hinsvegar erfiðara fyrir Hollande að eiga við Angelu Merkel kanslara Þýskalands enda er Hollande ekki á sömu línu og Sarkozy var hvað varðar niðurskurð og sparnað í ríkisfjármálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×