Erlent

Vinstrimenn reyna stjórnarmyndun í Grikklandi

Alexis Tsipras leiðtogi vinstrimanna freistar þess nú að mynda stjórn.
Alexis Tsipras leiðtogi vinstrimanna freistar þess nú að mynda stjórn. Mynd/AP
Kosningabandalag vinstrimanna reynir nú að mynda ríkisstjórn á Grikklandi. Kosningabandalagið, sem kallast Syriza, hefur barist gegn niðurskurðaráformum stjórnarinnar í Grikklandi og uppskar eftir því í kosningunum sem fram fóru um helgina.

Bandalagið er nú næst sterkasta aflið á þingi og verður þeim formlega falin stjórnarmyndun síðar í dag en í gær mistókst stærsta flokknum, Nýju Lýðræði að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Leiðtogi vinstrimanna, Alexis Tsipras, segist ætla að freista þess að mynda stjórn sem hafi það á stefnuskrá sinni að hætta við niðurskurðinn í landinu en Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa lagt hart að Grikkjum að skera niður. Í staðinn hefur þeim verið lofað viðamikilli efnahagsaðstoð.

Almenningur mótmælti þeim áformum hinsvegar harðlega og óánægjan leiddi til algjörs hruns stærstu flokka landsins í kosningunum. Stjórnmálaskýrendur telja þó fremur ólíklegt að Syriza takist að mynda stjórn. Líklegra sé að kjósa þurfi að nýju í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×