Erlent

Átak til að fækka dauðsföllum á lestarteinum

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Mynd/AP
Hátt í fimmtíu manns fórust í Bretlandi á síðasta ári við að stytta sér leið yfir lestarteina. Aukning er á þessum slysum og því hefur verið blásið til herferðar þar sem breski meistarinn í 400 metra grindahlaupi , Dai Greene, er í forgrunni.

Flestir þeirra sem verða fyrir lestum þegar þeir reyna að stytta sér leið yfir teinana eru á aldrinum 16-25 ára og því er vonast til að íþróttahetja á borð við Greene geti vakið athygli á málinu. Hann hefur nú gert myndband þar sem hann hleypur eftir hlaupabraut, en hann þarf að hlaupa í myrki og allskyns hlutir eru í vegi fyrir honum. Myndbandið á að sýna að eigi hlaupameistari í vandræðum með að hlaupa við slíkar aðstæður, þá eigi aðrir enn minni möguleika. Auk dauðsfallanna fimmtíu í fyrra þá voru skráð 445 tilvik þar sem engu munaði að fólk yrði undir lest.

Á síðustu tíu árum eru skráð dauðsföll af þessu tagi 200 í Bretlandi en flest gerast slysin á kvöldin og á nóttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×