Aðeins einn af forsetum lýðveldisins hefur náð stuðningi meirihluta kjósenda við fyrstu kosningu í embættið. Það var í forsetakosningunni 1968 þegar Kristján Eldjárn var kjörinn með nær tveimur þriðjuhlutum atkvæða. Yfirlit yfir stuðning við kjörinn forseta er sýnt í 1. töflu.
Kjörnir forsetar hafa að jafnaði skjótt aflað sér stuðnings þjóðarinnar og það óháð kjörfylgi. Þannig varð Vigdís strax vinsæl enda þótt enginn af þjóðkjörnu forsetunum fjórum hafi hlotið minna fylgi við upphaflegt kjör en hún. Engu að síður er æskilegt að forseti njóti ótvíræðs stuðnings meirihluta kjósenda. Sums staðar tíðkast að endurtaka kjörið ef enginn frambjóðandi nær meirihluta í fyrstu atrennu. Er þá að jafnaði kosið á milli tveggja efstu manna á ný og nær þá annar þeirra hreinum meirihluta.
Stjórnlagaráð leggur til í frumvarpi sínu einfaldari aðferð að sama marki. Hún er sú að sameina fyrstu og aðra umferð með því að beita forgangsröðunaraðferð. Kjósendur raða þá frambjóðendum í forgangsröð: Þennan vil ég helst, en nái hann ekki kjöri þá þennan o.s.frv. Fái enginn frambjóðenda meirihluta að fyrsta vali kjósenda er sá þeirra sem fær minnst fylgi dæmdur úr leik og atkvæði hans færð til hinna í samræmi við annað val viðkomandi kjósenda, o.s.frv. allt þar til meirihluti liggur fyrir.
Írar hafa um langan aldur notað þessa aðferð í öllum almennum kosningum, þar á meðal í forsetakosningum. Einu sinni hefur reynt á það á Írlandi að sá forsetaframbjóðandi hafi ekki náð kjöri sem þó fékk flest atkvæði að fyrsta vali. Þetta dæmi er rakið í 2. töflu.
Brian Lenihan hlaut vissulega flest atkvæði í fyrstu en þó ekki meirihluta. Kjósendur Austin Currie gerðu því útslagið. Eins og sjá má í töflunni tóku flestir þeirra Mary Robinson fram yfir Brian Lenihan svo að það var Mary sem náði kjöri en ekki Brian. Trúlega hefði það sama orðið upp á teningnum ef kosið hefði verið aftur á milli þeirra tveggja.

Fram kemur í töflunni að enginn frambjóðenda náði í fyrstu hreinum meirihluta. Þá eru tveir þeir atkvæðarýrustu dæmdir úr leik og atkvæði þeirra færð að 2. vali kjósenda. (Írar spara sér talningar með því að slá tveimur hrinum saman eftir vissum reglum, sem er þó fræðilega ekki alveg kórrétt!) Fyrst við 4. talningu er orðið ljóst hver er sigurvegarinn. Það var Michael D. Higgins. Þótt hann hafi ekki hlotið meirihluta í upphafi sótti hann í sig veðrið við hverja talningarhrinu og var því með traust umboð í lokin.
Í forsetakosningunni hér á landi árið 1996 féllu atkvæði eins og sýnt er í 4. töflu.
Hefði valið á forseta orðið annað með forgangsröðunaraðferð, eða ef forsetakjörið hefði farið fram í tveimur umferðum þar sem kosið hefði verið á milli þeirra Ólafs Ragnars og Péturs Kr. í seinni umferð? Því verður ekki svarað eftir á.
Forgangsröðunaraðferðin tryggir að rétt kjörinn forseti njóti meirihluta stuðnings kjósenda en sneiðir hjá ókostunum við kjör í tveimur umferðum sem eru m.a. eftirfarandi:
- Kostnaður við tvær kosningar.
- Áhugaleysi almennings á þátttöku í báðum umferðunum. Sé t.d. talið ljóst að enginn muni ná kjöri í fyrri umferð og einsýnt hverjir nái að vera í kjöri í þeirri seinni, kunna kjósendur að bíða seinni umferðarinnar.
- Flokkadrættir og hrossakaup frambjóðenda eftir fyrri kosninguna, þar sem hinir tveir efstu kunna að biðla með óviðeigandi hætti til stuðningsmanna þeirra sem eru úr leik.