Handbolti

Björgvin: Baráttan og íslenska hjartað vann þennan leik

Henry Birgir Gunnarsson í Vrsac skrifar
Guðmundur þjálfari fagnar hér Björgvini í leikslok. Þeir stiga léttan stríðsdans og það gerði líka allt liðið út um allan völl.
Guðmundur þjálfari fagnar hér Björgvini í leikslok. Þeir stiga léttan stríðsdans og það gerði líka allt liðið út um allan völl. mynd/vilhelm
Markvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson átti ekki sinn besta leik í kvöld en hann steig heldur betur upp þegar mest á reyndi. Varði tvö síðustu skot Norðmanna og Ísland fylgdi þeirri markvörslu eftir með mörkunum sem skildi á milli.

"Ég var allan tímann með þetta. Leikáætlunin var að verja ekki neitt í 55 mínútur og verja svo á fullu síðustu fimm mínúturnar," sagði Björgvin Páll kátur og hló dátt.

"Þetta var fáranlega æðislegt. Karakterinn sem við sýnum í þessum leik er ruglaður. Þetta eru ekki hæfileikarnir og taktíkin sem skilar þessum sigri. Það er baráttan og íslenska hjartað. Við erum undir allan leikinn og kannski lærðum við eitthvað af leiknum við Króatíu. Það er liðið sem er yfir eftir 60 mínútur sem vinnur.

"Það er jafn æðislegt að vinna í dag eins og það var ógeðslega fúlt að tapa gegn Króötum. Þetta er gott veganesti fyrir framhaldið," sagði Björgvin en athygli vakti að hann öskraði á Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóra HSÍ, snemma í leiknum en þá var lítið að ganga upp hjá honum.

"Ég var aðeins að spjalla við Einar vin minn. Þetta var á vinsamlegum nótum. Við erum góðir félagar," sagði Björgvin himinlifandi rétt eins og allt liðið var eðlilega eftir leikinn lygilega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×