Skoðun

Rangfærslur

Einar Þ. Magnússon skrifar
Lýsing forseta bæjarstjórnar í Vogum, Ingu Sigrúnar Atladóttur, á afleiðingum álvers í Helguvík fyrir Suðurnes er því miður átakanlegt dæmi um rangfærslur eða vanþekkingu á verkefninu. Í grein í Fréttablaðinu fullyrðir hún að við blasi slík eyðilegging að Reykjanesið verði óþekkjanlegt. Því er lýst að álverið kalli á 8 til 16 jarðhitavirkjanir á Reykjanesi, með tilheyrandi borstæðum, brennisteinsmengun, röralagningu, lónum, jarðskjálftum og tvöfaldri röð af þrjátíu metra háum stálmöstrum eftir endilöngum skaganum.

Þetta er rangt og hér skal skýrt af hverju:

Í fyrsta lagi þarf að leggja raflínur til Suðurnesja óháð því hvort álver rís eða ekki. Staðsetning þeirra var ákveðin af sveitarstjórnum á svæðinu, þar á meðal bæjarstjórn Voga, á sínum tíma. Í dag er „skaginn“ tengdur meginflutningskerfinu með einni 130 KV línu sem er óásættanlegt rekstraröryggi fyrir raforkunotendur og orkuver á Suðurnesjum. Landsnet hefur því ákveðið að leggja aðra línu, 220 KV, án tillits til þess hvort álver rís í Helguvík eða ekki. Rísi hins vegar álver eða annar orkufrekur iðnaður á svæðinu verður 130 KV fjarlægð en önnur 220 KV lína reist í hennar stað. Áhrif álversins eru þá eingöngu þau að í stað 132 KV línu kemur 220 KV lína.

Í öðru lagi er rangt að 8-16 jarðhitavirkjanir rísi á Reykjanesinu vegna þessa. Rætt er um stækkun Reykjanesvirkjunar, Eldvörp og Krísuvík hér á Reykjanesinu til að veita orku í álversverkefnið og enginn kannast við að Reykjanesið verði allt undirlagt vegna þeirra. Forseti bæjarstjórnar í Vogum ætti að eiga hægt með að kynna sér það.

Í þriðja lagi eru engin brennisteinsvandamál á Reykjanesi. Sem dæmi er brennisteinsvetni frá virkjuninni í Svartsengi einungis um 10% af því sem það er á Hellisheiði. Auðvitað verður tryggt að allar þessar virkjanir uppfylli reglur sem um þetta gilda hér á landi sem eru þær ströngustu sem finnast.

Í fjórða lagi eru fullyrðingar um aukna jarðskjálfta á Reykjanesi rangar. Jarðhitavinnsla hefur verið í Svartsengi í ein 35 ár og niðurdæling í 30 án þess að unnt sé að rekja til þess neina aukningu á tíðni jarðskjálfta. Sama má segja um Reykjanes þó stórfelld jarðhitanýting og niðurdæling eigi sér þar reyndar skemmri sögu.

Í fimmta lagi er ekki sjálfgefið að lón skapist vegna virkjana og má benda á Hellisheiðarvirkjun í því sambandi. Þau þurfa að auki ekki að vera til vansa og má af því tilefni nefna vinsælasta ferðamannastað á Íslandi, Bláa lónið, sem varð til sem uppistöðulón virkjunar.

Fólk greinir á, það er gömul saga og ný. Hins vegar hlýtur það að vera lágmarkskrafa að kjörnir fulltrúar fari rétt með í opinberri umræðu um atvinnuverkefni, auðlindanýtingu og náttúruvernd á Reykjanesi. Það er of mikið í húfi til að leyfa sér annað.




Skoðun

Sjá meira


×