
Leynast góð verkefni eða úrræði í pokahorni þínu?
Verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti hefur ákveðið að helga 8. nóvember ár hvert baráttunni gegn einelti. Slíkur baráttudagur var fyrst haldinn árið 2011 og markmiðið með deginum er að vekja sérstaka athygli á málefninu.
Undanfarið hefur umfjöllun um einelti verið áberandi í fjölmiðlum. Rætt hefur verið við þolendur eineltis sem sýna mikið hugrekki í því að koma fram og segja frá reynslu sinni.
Sjaldnar er fjallað um það mikla og góða starf sem á sér stað innan veggja skólanna í tengslum við einelti. Líkt og ég nefndi áðan þá erum við í mínum skóla alls ekki laus við einelti eða samskiptavanda. En við, líkt og margir aðrir skólar, reynum eftir bestu getu að stuðla að jákvæðum samskiptum, vellíðan og vináttu.
Til þess að ná betri árangri, minnka tíðni eineltis og bæta samskipti nemenda er mikilvægt að fjalla oftar um það góða starf sem á sér stað innan skólanna. Þannig geta aðrir skólar nýtt sér verkefni, ráð eða úrræði sem nýst hafa vel annars staðar og bætt sína verkferla.
Markmiðið með þessum pistli er ekki að útlista hvernig best er að vinna að bættum samskiptum, enda erfitt að finna einhlítt svar við því. Þar sem ég leita óhikað til samstarfsmanna minna og kennara, námsráðgjafa og sálfræðinga í öðrum skólum tel ég nokkuð víst að margir skólar eru að vinna gríðarlega gott starf þegar kemur að samskiptum og einelti. Markmiðið með pistlinum er í raun að brjóta ísinn, fjalla um það jákvæða og það sem hefur reynst vel og hvetja síðan aðra kennara, námsráðgjafa, foreldra eða hvern sem er til að gera slíkt hið sama svo við getum lært hvert af öðru.
Ég ræddi við nokkur börn um hvað þau telja að virki best þegar unnið er að bættum samskiptum í skólanum. Þau nefndu öll hve mikilvægt það væri að eiga talsmann innan skólans, einhvern sem hægt er að leita til þegar illa gengur og spjalla við í ró og næði. Við námsráðgjafar, kennarar, stuðningsfulltrúar, skólaliðar, húsvörður eða hver sem er sem starfar í skólum getum verið þessi lykilmanneskja fyrir barnið. Það er því mikilvægt að vera til staðar fyrir börnin, gefa þeim tækifæri til að tjá sig og leyfa þeim að finna að við hlustum á þau.
Börnin nefndu einnig hve nauðsynlegt það væri fyrir þau börn sem eiga ekki marga félaga að fá tækifæri til að slappa af og líða vel í öruggum félagsskap, svo sem í fyrir fram ákveðnum vinahópi, leynifélagi, saumaklúbbi, stelpu- eða strákahópi, kvikmyndaklúbbi eða öðru skemmtilegu. Öll töluðu þau um mikilvægi þess að styrkja sjálfsmynd barna. Gefa þeim sem lenda í einelti færi á að sættast við sjálfa sig, styrkja félagsfærnina og sjálfstraust. Um leið er þó einnig mikilvægt að taka á öllum þeim málum sem upp koma. Líkt og ein stúlka nefndi: „Það er ekki nóg að segja að allt verði í lagi og að þið munið taka á málunum… þið verðið að gera það… ekki bara segjast ætla að gera það“. Virk og ýtarleg eineltisáætlun, kannanir sem meta félagstengsl og líðan, bekkjarfundir, einstaklingsviðtöl, hópráðgjöf og samvinna heimila og skóla eru allt mikilvægir þættir í þessu sambandi. Vinastaður í frímínútum hefur reynst mörgum nemendum vel, þar sem þeir hafa ákveðinn stað til að leita til þegar þeim líður illa. Samnemendur eru þá meðvitaðir um staðinn og geta komið öðrum til aðstoðar. Starfsfólk skólans fylgist einnig með og hvetur barnið til að taka þátt í leik eða að koma og spjalla þegar við á. Skipulagðir leikir og leikhópar í frímínútum (t.d. þar sem kennari dregur miða með hugmyndum að leik eða hópi barna sem fer saman í leik) hefur reynst vel t.d. hjá yngri nemendum.
Margt annað sniðugt og skemmtilegt er gert í skólanum með það að markmiði að koma í veg fyrir fleiri eineltistilfelli og til að bæta líðan, félagstengsl og samskipti nemenda. En þrátt fyrir gott starf þá má ávallt gera betur og hvet ég því aðra til að liggja ekki lengur á góðum hugmyndum og leyfa okkur hinum að njóta góðs af reynslu og þekkingu ykkar.
Skoðun

Kúnstin að vera ósammála sjálfum sér
Heiða Ingimarsdóttir skrifar

Óboðlegt ástand á Landspítala – okkar sjónarhorn
Hildur Jónsdóttir,Einar Freyr Ingason,Þórir Bergsson skrifar

Geislameðferð sem lífsbjörg
Ingibjörg Isaksen skrifar

Þetta eru ekki eðlileg vinnubrögð
Bryndís Haraldsdóttir skrifar

Stöðvum helvíti á jörðu
Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Hversu mikið er nóg?
Guðríður Eldey Arnardóttir skrifar

Til þeirra sem fagna
Sigurður Gísli Bond Snorrason skrifar

Að semja er ekki veikleiki – það er forsenda lýðræðis
Elliði Vignisson skrifar

Tekist á um hvort lýðræðið á Íslandi sé virkt eða hvort hefðaréttur sé á völdum
Þórður Snær Júlíusson skrifar

Sumar og sól – en ekki alltaf sátt í sálinni
Ellen Calmon skrifar

Að flokka hver vinnur og hver tapar
Tryggvi Rúnar Brynjarsson skrifar

Hagur hluthafanna alltaf og undantekningarlaust í forgangi
Jón Kaldal skrifar

Má berja blaðamenn?
Sigríður Dögg Auðunsdóttir skrifar

Nýr rektor og 2025 – tímamót í háskólamálum
Ástráður Eysteinsson,Magnús Karl Magnússon,Margrét Helga Ögmundsdóttir,Tinna Laufey Ásgeirsdóttir skrifar

Vonir um vopnahlé eins og hálmstrá
Sveinn Rúnar Hauksson skrifar

Samfélagið innan samfélagsins
Sigríður Svanborgardóttir skrifar

Til hamingju Íslendingar með nýja Óperu
Andri Björn Róbertsson skrifar

Hvers vegna hatar SFS smábáta? Svarið tengist veiðigjöldum
Kjartan Páll Sveinsson skrifar

„Oft er flagð undir fögru skinni“
Guðmunda G. Guðmundsdóttir skrifar

Orðhengilsháttur og lygar
Elín Erna Steinarsdóttir skrifar

Fjögurra daga vinnuvika – nýr veruleiki?
Sigvaldi Einarsson skrifar

Ráðherra gengur fram án laga
Svanur Guðmundsson skrifar

Hagkvæmur kostur utan friðlands
Jóna Bjarnadóttir skrifar

Gagnsæi og inntak
Halldóra Lillý Jóhannsdóttir skrifar

Sumargjöf
Þórunn Sigurðardóttir skrifar

Hannað fyrir miklu stærri markaði
Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Grafarvogur framtíðar verður til
Sara Björg Sigurðardóttir skrifar

Málþófið um veiðigjöldin vekur miskunnsama Samverja
Sigurjón Þórðarson skrifar

Menntastefna 2030
Guðmundur Ingi Kristinsson skrifar

Ágætu fyrrum samstarfsaðilar á Þjóðminjasafni Íslands
Uggi Jónsson skrifar