Erlent

Vísað í hryðjuverk við ákæru

Lögreglan hefur tekið hart á mótmælum sem eru kennd við Occupy Wall Street. Hér handtekur hún mótmælendur í Washington í desember.nordicphotos/afp
Lögreglan hefur tekið hart á mótmælum sem eru kennd við Occupy Wall Street. Hér handtekur hún mótmælendur í Washington í desember.nordicphotos/afp
David C. Gorczynski, 22 ára mótmælandi úr Occupy Wall Street-hreyfingunni, hefur verið ákærður fyrir tilraun til bankaráns. Ákæran byggir á lögum gegn tengslum við hryðjuverk.

Gorczynski gekk inn í útibú Wells Fargo banka í smábænum Easton í Pennsylvaníu. Hann hélt á skiltum sem á stóð „Það er verið að ræna ykkur“ og „Afhendið manni byssu og hann getur rænt banka. Afhendið manni banka og hann getur rænt heilt land.“

Gjaldkeri í bankanum þrýsti á neyðarhnapp og lögreglan kom á staðinn, líkt og um bankarán væri að ræða. „Okkar menn gerðu að mínu mati það sem þurfti að gera. Þegar allt kemur til alls verðum við að bregðast við á viðeigandi hátt ef þrýst er á neyðarhnapp í banka,“ sagði Carl Scalzo, lögreglustjóri bæjarins við dagblaðið Express-Times.

Lögreglustjórinn segir að stjórnarskrárbundinn réttur til mótmæla vegi ekki þyngra en ásakanir um að viðkomandi tengist einhverju ískyggilegu. Ekki sé hægt að taka loftkennda hugmynd um mótmæli gilda sem vörn í glæpamáli.

Occupy-hreyfingin sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins. „Hann er ekki glæpamaðurinn. Ef lögreglan mundi í raun vernda og þjóna skattgreiðendum hefði hún handtekið bankamennina og þessi maður væri kallaður hetja.“- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×