Skoðun

Stórt skref í rétta átt

Þórarinn Guðjónsson skrifar
Föstudaginn 18. maí kynnti ríkisstjórnin fjárfestingaáætlun 2013-2015. Áætlunin er framsækin og mun efla innviði atvinnusköpunar, rannsókna og samgangna á Íslandi. Fjárfestingaráætlunin tekur á mörgum þáttum svo sem ferðaþjónustu, skapandi greinum, grænu hagkerfi, samgöngum, vísindum og nýsköpun. Í raun má segja að þetta verði eitt mikilvægasta skrefið í upprisu landsins eftir hrun og því afar mikilvægt að áætlunin gangi eftir.

Rannsóknir og nýsköpunÍ þessari grein fjalla ég einungis um þann þátt sem snýr að vísindum og nýsköpun. Í fjárfestingaáætluninni er stefnt á verulega aukningu á framlögum til rannsókna og þróunar. Rannsóknasjóður og Tækniþróunarsjóður Vísinda- og tækniráðs eru hryggjarstykkið í vísindastarfi og tækniþróun á Íslandi. Með því að efla þessa sjóði gefst tækifæri á að styðja við aukna þekkingarsköpun og hámarka nýtingu rannsókna til tækniþróunar. Vísindastarf er forsenda hagvaxtar nútímasamfélaga þar sem þekkingarsköpun sem verður til við vísindastarf er forsenda rannsóknartengdrar nýsköpunar.

Samkeppnissjóðir Vísinda- og tækniráðsÁ undanförnum árum hafa fjárframlög til rannsóknasjóða vísinda- og tækniráðs rýrnað verulega að raunvirði. Þetta kemur engum á óvart enda varð hér efnahagshrun sem erfitt hefur verið að vinna úr. Á undanförnum árum hefur úthlutunarhlutfall Rannsóknasjóðs farið niður fyrir 15% í ýmsum fræðigreinum. Margir aðilar innan vísinda- og fræðasamfélagsins hafa bent á hættuna sem þessu fylgir. Við erum að sjá að rannsóknahópar eru í hættu að flosna upp með óafturkræfu tapi á verðmætri þekkingu og mannafla. Það er vel þekkt að margar þjóðir sem staðið hafa frammi fyrir efnahagskreppu svo sem eins og Finnar á 9. áratug síðustu aldar hafa nýtt sér þekkingarsköpun og hagnýtingu þekkingar sem lykilþátt í uppbyggingu samfélagsins.

Í fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir aukningu um 750 milljónir í bæði Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð Vísinda- og tækniráðs, auk þess sem 500 milljónum verður varið árlega í markáætlun á sviði rannsókna og nýsköpunar. Þetta eru afar góðar fréttir og getur átt stóran þátt í að snúa við stöðnun vísindastarfs og tækniþróunar við núverandi aðstæður.

Jafnframt mun efling samkeppnissjóðanna auka við nauðsynlega nýliðun vísinda- og fræðimanna og efla þannig vísindastarf til framtíðar. Ísland er í samkeppni við önnur lönd um hæfustu vísinda- fræðimenn á hverju sviði. Til þess að við getum staðið okkur í þessari samkeppni þarf að tryggja grundvöll vísindastarfs og tækniþróunar.

Margfeldisáhrif fjárfestingastefnunnarSú stefna sem hér er mótuð er skynsamleg og mun hafa margfeldisáhrif inn í vísindasamfélagið óháð stofnunum og fræðasviðum. Með aukinni fjármögnun skapast meira svigrúm fyrir samstarf hópa á milli hvort sem er innan sama fræðasviðs eða þvert á fræðasvið. Efling rannsóknasjóðs mun styrkja verulega uppbyggingu doktorsnáms í landinu en mörg doktorsverkefni eru háð úthlutun úr Rannsóknasjóði. Styrking samkeppnissjóða Vísinda- og tækniráðs mun jafnframt auka samkeppnishæfni íslenskra rannsóknahópa í að ná í erlenda rannsóknastyrki.

Stefnur og eftirfylgniÞetta er að sjálfsögðu einungis stefna og eftir er að tryggja fjármögnun meðal annars í samvinnu við Alþingi. Hér er á ferðinni mál sem ætti að vera möguleiki að fá alla flokka til að sameinast um óháð því hver átti upphaflegu hugmyndina. Alltof oft hefur það gerst að stefnumál hafa verið sett fram og þeim ekki fylgt eftir. Ef hér er alvara á ferð ættum við strax í byrjun árs 2013 að fá verulega innspýtingu inn í íslenskt atvinnulíf. Það má hins vegar ekki gerast að svona áætlun sé lögð fram eingöngu til þess að slá ryki í augu fólks í aðdraganda kosninga.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×