Skoðun

Atvinna í stað aðgerðaleysis

Björk Vilhelmsdóttir skrifar
Reykjavíkurborg ákvað nýverið að bjóða upp á 1900 sumarstörf fyrir ungt fólk í stað 1500 starfa eins og hefur verið síðastliðin sumur. Ástæðan er sú að síðastliðið sumar þáðu um 400 námsmenn fjárhagsaðstoð frá borginni. 400 vinnufærir námsmenn sem eyddu sumrinu í aðgerðaleysi og fékk fá eða engin tækifæri til að nýta krafta sína. Á sama tíma greiddi borgin þeim framfærslueyri en gat ekki nýtt sér vinnufúsar hendur þeirra. Þetta ástand viljum við ekki sjá í sumar.



Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins samþykktu nýlega í borgarráði að þeir sem voru án vinnu síðastliðið Sumar, og skortir þar af leiðandi starfsreynslu, skyldu njóta forgangs í sumarstörf borgarinnar. Reykjavíkurborg á að líta á það sem frumskyldu sína að veita ungu fólki sem annars fær enga atvinnu, reynslu af fjölbreyttum störfum, enda er slík reynsla ómetanleg hverjum og einum. Ef ungt fólk fær ekki tækifæri til að efla sig yfir sumartímann er hætta á að það öðlist litla reynslu og festist í áralöngum vítahring atvinnuleysis og fátæktar. Við bindum vonir við að atvinnulífið skapi jafn mörg sumarstörf og áður en getum ekki skorast undan þeirri ábyrgð að veita reynslulitlu fólki vinnu. Í þessu sambandi ætti borgin að gera gullnu regluna að sinni og hugsa: Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri borgarbúum, það skuluð þér og þeim gjöra.



Þessi fjölgun sumarstarfa kostar borgina um 218 milljónir sem er að mestu tekið af lið sem kallast ,,ófyrirséð“. Það er von okkar sem stöndum að þessu átaki að við spörum verulegar fjárhæðir, eða ríflega 100 milljónir sem annars færu í fjárhagsaðstoð til sama hóps. Með því að bjóða upp á vinnu, erum við ekki skuldbundin til að greiða fulla fjárhagsaðstoð til þeirra sem ekki vilja vinnu. Þeir sem þiggja ekki vinnu hjá borginni en eru vinnufærir, eiga þó aðeins rétt á hálfri þeirri fjárhagsaðstoð sem þeir annars eiga rétt til. Við gerum ráð fyrir að flestir vilji vinna, því það er ekki fýsilegur kostur fyrir ungt fólk sem býr í foreldrahúsum að lifa á 37.250 þús. á mánuði þegar þeir eiga kost á vinnu t.d. í 8 vikur og fá fyrir það 174 þús. á mánuði, auk reynslunnar sem er ekki síður mikilvæg í reynslubankann og í starfsferilsskrána.



Ef reynslan af þessu verkefni verður góð, eins og vonir standa til, gætum við í framhaldinu fært fjármagn úr fjárhagsaðstoðinni til atvinnuskapandi verkefna fyrir fleiri aldurshópa. Í því er fólginn mikill ávinningur fyrir borgarbúa og Reykjavíkurborg.




Skoðun

Sjá meira


×