Skoðun

Jú Jón, sjómenn njóta auðlindaarðs

Tryggvi Þór Herbertsson skrifar
Eitt af því sem ég sakna mest úr háskólaumræðunni er að takast málefnalega á við menn um grunnhugmyndir. Einn heldur einu fram og annar skorar þann á hólm í rökræðu. Þessi aðferð leiðir til þess að þekking verður til.



Við greinaflokki mínum um íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið hef ég ekki fengið mikla málefnalega gagnrýni enn sem komið er. En nú ber vel í veiði! Jón Steinsson, sem er Milton Friedman fræðimaður við Chicago-háskóla, hefur mótmælt harðlega staðhæfingu sem ég setti fram í greinaflokknum. Í annarri af fimm greinum sem birtist hér í blaðinu held ég því fram að hluti auðlindaarðsins í sjávarútvegi renni til sjómanna vegna þess fyrirkomulags sem notað er til að ákvarða laun þeirra. Þar segi ég jafnframt: „Auðlind sem allir þjóðfélagsþegnar hafa jafnan rétt til að nýta er dæmd til að vera ofnotuð ef afrakstur hennar er nægilega eftirsóknarverður – auðlindarentunni er sóað. Sóunin felst í að of margir sjómenn munu fjárfesta í of miklum fjármunum í viðleitnin sinni að ná til sín auðlindarentunni. Þetta er það sem kallað hefur verið sorgarsaga almenninganna. Þannig verður sjálfstortíming í raun það sem allir keppa að. Hver útgerðarmaður hugsar aðeins um eigin hag. Frelsi í almenningum leiðir því að lokum tortímingu yfir alla þátttakendur.“

Best er að taka tilbúið dæmi til að sýna að gagnrýni Jóns á ekki við rök að styðjast. Segjum sem svo að fiskveiðar séu frjálsar og að auðlindarentunni sé allri sóað – að of margir sjómenn keppist um takmarkaða fiskveiðiauðlind á of mörgum skipum. Í dæmaskyni skulum við gera ráð fyrir að 10 þúsund sjómenn stundi sjósókn á þúsund skipum sem öll séu með sama aflaverðmæti – allir skipstjórarnir eru jafn fisknir.



Nú eru innleiddar aðgangstakmarkanir í veiðarnar, líkt og gert var hér á landi árið 1984, til að auðlindaarðurinn verði til. Útgerðin aðlagar sig. Sumir útgerðarmenn selja kvóta og aðrir kaupa. Skipum fækkar og sjómönnum með. Gerum nú ráð fyrir að þessu ferli sé lokið og fullri hagkvæmni sé náð í útgerð. Skipum hefur fækkað um 500 og sjómönnum um 5 þúsund. Að meðaltali er aflaverðmæti skipanna nú tvisvar sinnum hærra en áður (vegna einkaleyfis til að veiða) og laun sjómannanna hafa tvöfaldast (vegna hlutaskiptakerfisins). Auðlindaarðinum sem áður var sóað á altari of mikillar sóknargetu (offjárfestingar) er nú skipt á milli sjómannanna (vegna hlutaskiptakerfisins) og útgerðamannanna.

Reyndar eiga útgerðirnar eftir að borga af sínum hlut fyrir heimildirnar sem þær keyptu. Það bendir til þess að auðlindaarðurinn sem féll útgerðinni í hlut endi að lokum hjá þeim sem seldi kvótann og fór út úr greininni, en það er önnur saga sem ég mun gera skil síðar. Ef hinsvegar um fastlaunakerfi hefði verið að ræða, eða að kvótakaupin væru greidd af óskiptum hlut, hefði (brúttó) auðlindarentan endað hjá útgerðinni.

Sjómenn njóta því auðlindaarðsins með útgerðunum vegna hlutaskiptakerfisins. Þannig er það nú Jón minn!




Skoðun

Sjá meira


×