Enski boltinn

Lalas: Beckham skuldar Bandaríkjunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Beckahm hefur tvívegis verið lánaður til AC Milan.
Beckahm hefur tvívegis verið lánaður til AC Milan. Nordic Photos / AFP

Alexi Lalas, fyrrum knattspyrnustjóri LA Galaxy, segir að David Beckham skuldi bandarískum áhugamönnum um knattspyrnu að einbeita sér að fullu að Galaxy.

Beckham er sagður áhugasamur um að komast til félags í Evrópu á lánssamningi þar til að nýtt tímabil hefst í Bandaríkjunum þann 15. mars næstkomandi.

Hann hefur verið sterklega orðaður við bæði Tottenham og Blackburn en forráðamenn beggja félaga hafa staðfest að þau vilji fá hann.

„Áhugamenn um knattspyrnu í Bandaríkjunum segja að Beckham hafi gert mikið fyrir íþróttina þar í landi. En hann hefur líka tekið mikið úr henni," sagði Lalas við fjölmiðla vestanhafs.

„Hann fór til Mílanó á sínum tíma til að undirbúa sig fyrir HM og ég held að það hafi mætt miklum skilningi. Ég efast um að slíkt sé upp á teningnum nú."

Landon Donovan, liðsfélagi Beckham hjá Galaxy, hefur útilokað að spila í Evrópu í vetur líkt og hann gerði með Everton í ensku úrvalsdeildinni í fyrra.

Forráðamenn Galaxy hafa enn ekki gefið grænt ljós á vistaskipti Beckham.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×