Enski boltinn

Joe Cole: Þetta er búin að vera erfið vika fyrir alla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Cole og Roy Hodgson eftir Bolton-leikinn.
Joe Cole og Roy Hodgson eftir Bolton-leikinn. Mynd/Nordic Photos/Getty
Joe Cole opnaði markareikninginn sinn í ensku úrvalsdeildinni í gær með því að tryggja Liverpool 2-1 sigur á Bolton með marki í uppbótartíma. Cole fullvissar alla um að leikmenn liðsins standi að baki stjórans Roy Hodgson.

„Við stöndum allir með stjóranum. Við viljum koma þessu félagi aftur stað í rétta átt og halda áfram að leggja okkur fram í æfingum og leikjum," sagði Joe Cole sem potaði boltanum inn á marklínunni í gær.

„Við erum allir að spila fyrir stjórann og treyjuna. Það verða allir að standa saman því það er enginn okkar stærri en félagið," sagði Joe Cole sem tókst ekki að skora í fyrstu tíu deildarleikjum sínum fyrir Liverpool.

„Ég er mjög ánægður fyrir hönd allra hjá félaginu. Þetta er búin að vera erfið vika fyrir alla og þá sérstaklega stjórann, en við náðum að vinna þennan leik og það var sterkt," sagði Cole.

„Þetta snýst ekki bara um neikvæðnina í blöðunum því enginn okkar er hrifinn af því að tapa leikjum. Stór hluti af nútímafótbolta er samt að ráða við pressuna og halda áfram," sagði Cole.

„Ég er ánægður fyrir hönd stuðningsmannanna, fyrir eigendurna og fyrir stjórann. Við verðum nú öll að standa saman og sjá til þess að þetta hafi ekki verið fölsk byrjun," sagði Cole.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×