Innlent

Þriðjungur landsmanna í námi í fyrra

Mynd/Stefán
Tæpur þriðjungur landsmanna lagði stund á einhverskonar nám á síðasta ári, en mun algengara er að konur sæki sér fræðslu en karlar.

Rúmlega 70 þúsund manns á aldrinum 16 til 74 ára sóttu sér einhverskonar fræðslu á síðasta ári, í skóla, á fyrirlestrum og námskeiðum eða með leiðsögn af öðru tagi, en það er tæpur þriðjungur landsmanna.

Þetta hlutfall hefur farið hækkandi frá árinu 2003, en þá nam það um 28 prósentum prósentum, að því er fram kemur í nýjum tölum Hagstofunnar.

Nú er svo komið að Ísland er í þriðja sæti 33 Evrópuþjóða þegar litið er á þátttöku fólks á þeim aldri sem virkast er á vinnumarkaði, en aðeins í Danmörku og Sviss er þátttakaan meiri.

Hlutfall kvenna sem sækir sér einhverskonar fræðslu er nokkuð hærri en hlutfall karla, en fjórðungi fleiri konur sóttu námskeið, stunduðu nám í skóla eða sóttu sér annarskonar fræðslu á árinu 2010.

Atvinnulausir og fólk utan vinnumarkaðar taka sömuleiðis mun frekar þátt í einhverskonar símenntun, en tæp 40 prósent fólks úr þessum hópum lagði stund á nám af einhverju tagi í fyrra, samanborið við innan við 30 prósent vinnandi fólks.

Sé aðeins litið til þeirra sem stunda símenntun utan formlegs náms í skóla, til dæmis með því að sækja námskeið, ráðstefnur eða fyrirlestra, þá sóttu rúmlega 30 þúsund manns sér slíka fræðslu, eða tæp 15 prósent landsmanna á aldrinum 16 til 74 ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×