Skoðun

Kjördæmapot og vegagerð

Örn Sigurðsson skrifar

Eins og segir á vef FÍB er engu líkara en núverandi stjórnvöld hafi ákveðið að girða höfuðborgarsvæðið af með toll­múrum og leggja vegtolla á alla umferð um stofnbrautir inn á og út af svæðinu og jafnvel innan þess að loknum fyrirhuguðum og löngu tímabærum vegabótum.

Vegirnir, sem um ræðir, eru órjúfanlegur hluti af borgar- og þéttbýlissamfélagi SV-hornsins og kostnaðurinn við gerð þeirra er löngu greiddur af naumt skömmtuðu vegafé og vegtollum árum saman á Reykjanesbraut. Vegfarendur eiga enga valkosti verði tollmúrarnir reistir.

Áformaðar vegabætur eru sannarlega tímabærar. Núverandi ástand veganna og háskinn af umferð um þá eru bein afleiðing af langvarandi vanrækslu, fjársvelti og skorti á fagmennsku samgönguyfirvalda.

Um 70% af tekjum vegasjóðs koma til vegna umferðar á höfuðborgarsvæðinu. Á síðustu áratugum runnu um 25% af vegafé til stofnbrauta á svæðinu; árið 2009 voru það 2,5% og árið 2010 nánast 0%. Á SV-horninu verða um 70% af öllum alvarlegum umferðarslysum.

Helsti áhrifavaldur samgöngumála á Íslandi er 9 manna samgöngunefnd Alþingis. Nú situr þar 1 þingmaður af höfuðborgar­svæðinu. Samkvæmt vef Alþingis áttu íbúar á SV-horninu að meðaltali 1,4 fulltrúa af 9 á undangengnum 100 löggjafarþingum frá 1926.

Á sama tímabili áttu íbúar SV-hornsins að meðaltali 2,14 fulltrúa af 11 í fjárlaganefnd Alþingis. Nú eiga þeir 2 fulltrúa.

Þessar þingnefndir eru því enn í dag vettvangur kjördæmapotsins illræmda, þ.e. handstýringar, geðþótta og sjálftöku. Orðið „kjördæmapot" er fremur sakleysis­legt en hér er að sjálfsögðu um að ræða háspillingu, sem á sér enga hliðstæðu í siðuðum samfélögum.

Reykjanesbraut að Leifsstöð, Suðurlands­vegur að Selfossi og Vesturlandsvegur að Hvalfjarðargöngum eru fjölförnustu vegir á Íslandi og vegabætur þar því mjög arðsamar.

Engin önnur leið er fær til að fjármagna umræddar framkvæmdir en að snúa nú við blaðinu og beina hér eftir a.m.k. 55% af árlegu vegafé inn á höfuðborgarsvæðið.

Kaflinn frá Sandskeiði að Selfossi og ókláraður 5km kafli á Reykjanesbraut að Leifsstöð liggja utan sveitarfélagamarka á höfuðborgarsvæðinu. Vegabætur á þessum köflum þarf því sömuleiðis að fjármagna með sínum skerfi af árlegu vegafé.






Skoðun

Sjá meira


×