Viðskipti innlent

Kortleggja fyrirtæki í sjávarútveginum

Fyrstu niðurstöður í könnun á því hvaða fyrirtæki tengjast sjávarútveginum liggja fyrir. Svo virðist sem fyrirtækin vinni lítið saman. Fréttablaðið/Anton
Fyrstu niðurstöður í könnun á því hvaða fyrirtæki tengjast sjávarútveginum liggja fyrir. Svo virðist sem fyrirtækin vinni lítið saman. Fréttablaðið/Anton
Velta tæknifyrirtækja sem tengjast sjávarútvegi nam 26 milljörðum króna í fyrra. Þetta eru tæp tíu prósent af heildarumfangi sjávarútvegsfyrirtækja á sama tíma. Þetta kom fram í máli Lindu Bjarkar Bryndísardóttur verkefnisstjóra þegar hún kynnti í gær fyrstu niðurstöður af umfangi íslenska sjávarklasans svokallaða. Með sjávarklasanum er átt við öll þau fyrirtæki sem tengjast sjávarútvegi með einum eða öðrum hætti.

Sjávarklasinn er sjálfstætt fyrirbæri, sprottið upp úr doktorsverkefni Þórs Sigfússonar, fyrrverandi forstjóra tryggingafélagsins Sjóvár. Hann hefur upp á síðkastið unnið að því að ljúka doktorsnámi í alþjóðaviðskiptum við Háskóla Íslands. Í verkefninu skoðar Þór hvernig frumkvöðlar nýta tengslanet sitt til að styrkja fyrirtækin. Öðru máli gegnir um fyrirtæki sem tengjast sjávarútvegi.

„Tæknifyrirtæki sem tengjast sjávarútvegi eiga ekki í miklum samskiptum hvert við annað. Þau eiga í nánum tengslum við nokkur sjávarútvegsfyrirtæki sem eru þeirra helstu kúnnar. Mun nánari samvinna er hjá fyrirtækjum í leikjaiðnaði,“ segir Þór og telur mikil verðmæti geta falist í því að auka samstarf ólíkra fyrirtækja innan sjávarútvegsklasans.

Verkefnin fram undan tengd klasanum felast í því að kortleggja umfang sjávarútvegsins og skoða hvaða fyrirtæki tengjast honum. Nú þegar liggur fyrir að sjö hundruð fyrirtæki starfa í sjávarútvegsklasanum og eru starfsmenn þeirra ríflega tólf þúsund talsins. Óbein störf eru um átján þúsund. Þar af eru starfsmenn fyrirtækja sem tengjast sjávarútvegsfyrirtækjum um þúsund og flestir tæknimenntaðir.

Þá kemur fram í niðurstöðunum að málmsmíði og tengdur iðnaður eigi mest undir viðskiptum við sjávarútvegsfyrirtæki, eða 51 prósent. Hlutdeild umboðsverslunar er tæplega helmingi minni. Á eftir fylgja orkufyrirtæki og fyrirtæki í samgöngum og flutningastarfsemi.

jonab@frettabladid.is


Tengdar fréttir

Mikilvægt að vinna saman

„Ég spái því að næsta heimskreppa verði ekki bankakreppa heldur matvælakreppa. Í því felst að nýta auðlindir landsins til sjávar og sveita, hugsa þvert á atvinnugreinar, tengja saman fiskeldi og sjávarútveg og auka verðmæti útflutnings,“ segir Stefanía Karlsdóttir, eigandi Íslenskrar matorku á Reykjanesi. Fyrirtækið vinnur að því að byggja upp þrjú þúsund tonna fiskeldisstöð þar sem afurðir verði fullnýttar með hjálp ýmissa geira.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×