Skoðun

Ábyrgð veðurfræðinga

Sigurður Jônsson skrifar

Ekki fer á milli mála að á Íslandi er áhugi á veðri og náttúrufari e.t.v. öllu meiri en í mörgum öðrum löndum og einkennir daglega umræðu Íslendinga. Því vekur það ætíð furðu mína að veðurupplýsingar fjölmiðla skuli vera jafn ónákvæmar,- já og beinlínis hættulegar og raun ber vitni. Er ekki laust við að maður telji þetta meðal ástæðna fyrir óvarkárni fólks sem leggur illa búið á stað í ferðir innanlands og lendir síðan í hrakningum og vosbúð sem getur jafnvel orðið því að aldurtila.

Þetta eru býsna þungar ásakanir, en orsök þeirra er sú, að ólíkt flestum veðurfréttum erlendis þá er kæling ekki tilgreind í veðurfréttum hér á landi auk skyggnis, vindáttar og úrkomu og hitastigs. Þessi samtíningur upplýsinga og vöntun á upplýsingum um áhrif þeirra, nefnilega kælingu, gefur því ófullkomna mynd af veðráttu og áhrifum hennar á fólk. Raunar alranga ef aðeins er miðað við hitastig. Þannig er t.d. í dag, 4.janúar 2010 þegar þetta er skrifað, hitastig í Reykjavík uppgefið af Veðurstofu Íslands -4°C og ekki þarf að efast um að þetta eru réttar upplýsingar. En fari maður inn á útlendar veðurvefsíður eins og t.d. www.yr.no sem er býsna góð norsk vefsíða, þá sést að þetta hitastig ásamt vindinum myndar kælingu sem finnst sem -13°C. Á fimmtudag er á sömu vefsíðu spáð -8°C hitastigi í Reykjavík sem finnst sem -18°C kæling.

Það er augljóst að íslenskir veðurfræðingar eru jafn hæfir þeim norsku til að veita upplýsingar um kælingu, sem eru hagnýtar upplýsingar fyrir fólk til þess að það viti hver eru áhrif veðurs á menn og skepnur. Hér með er skorað á íslenska veðurfræðinga og fjölmiðla að flétta birtingu á kælingu inn í veðurfréttir sínar og veðurspár þannig að þetta verði hagnýtar upplýsingar og stuðla þannig á ábyrgan hátt að því að fólk búi sig í samræmi við veðurfar.






Skoðun

Sjá meira


×