Innlent

Breytingar á ósum Markarfljóts ekki í umhverfismat

Karen Kjartansdóttir skrifar
Breytingar á ósum Markarfljóts þurfa ekki að fara í Umhverfismat að mati Skipulagsstofnunar. Landeigandi í nágrenni fljótsins segir stórvarasamt að eiga við fljótið en fellst á þær breytingar sem nú hefur verið ráðist í.

Siglingastofnun segir breytingar á ósum fljótsins nauðsynlegar til að koma í veg fyrir að Landeyjahöfn skemmist í leysingum í vor sem mun verða til þess að gríðarlegt gjóskumagn mun berast með fljótinu til hafnarinnar.

Eins og fréttastofa greindi frá í gær er vinna þegar hafin við að færa ósa stórfljótsins austur frá höfninni án þess að umhverfismat hafi verið gert. Þessar framkvæmdir gera ráð fyrir að ósar fljótsins færist um 400 metra til austurs með 600 metra löngum varnargarði sem liggur mjög nálægt sjó. Garðinum er ætlað að að verja höfnina fyrir gjósku úr fljótinu næstu tvö ár en hann á síðan að fjarlægja af Siglingastofnun. Siglingastofnun ábyrgist einnig að garðurinn verði rofinn ef fljótið brýtur sér leið austur við ósa Markarfljóts.

Fyrstu tillögur um þær framkvæmdir kváðu á um að ósarnir yrðu færðir um allt að tvo kílómetra en þær tillögur mættu mikilli mótstöðu og var þess krafist að Skipulagsstofnun færi fram á að umhverfismat yrði gert. Meðal þeirra gagnrýni sem barst um framkvæmdirnar var frá landeigendum í nágrenni fljótsins.

Kristján Ólafsson er ábúandi á Seljalandi. Hann segir að hefði verið ráðist í stærri framkvæmdirnar hefði hætta geta skapast í kring enda fljótið hættulegt, einkum í langvarandi frostum.

„Þá lónar það allt uppi og leitar stystu leiðar undan halla jafnvel upp að fjalli og austur með og austur í Hólsós. Það hefur gerst áður það hafa komið klakastíflur í Markarfljót sem hafa rofið hér Seljalandsgarðinn svokallaða, þannig þetta er mjög varasamt fljót," segir Kristján.

Hann segist þó nokkuð sáttur við þær framkvæmdir sem nú hefur verið ráðist í þótt hann ítreki að alltaf sé varasamt að eiga við Markarfljót. „Við teljum að þetta skapi í það minnsta minni hættu en hefði orðið með tveggja kílómetra færslunni."

Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri Ragnárþings eystra segir að sveitastjórnin hafi talið sér fært að veita framkvæmdaleyfi eftir að hafa farið yfir umsögn Skipulagsstofnunnar en á henni byggði Umhverfisstofnun sína umsögn en í henni segir meðal annars að áhrifasvæði framkvæmdarinnar sé innan núverandi farvegs Markarfljóts og hefur áin áður runnið um fyrirhugað framkvæmdasvæði. Umhverfisstofnun geri því ekki ekki athugasemd við fyrirhugaða framkvæmd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×