Innlent

Ákærðir fyrir skotárás, rán og ofbeldi

Einn byssumanna leiddur fyrir dómara.
Einn byssumanna leiddur fyrir dómara.
Ríkissaksóknari hefur ákært fjóra menn fyrir skotárás á heimili í Ásgarði í Reykjavík á aðfangadag á síðasta ári. Að frumkvæði eins þeirra fóru þeir að heimili manns sem þar bjó ásamt sambýliskonu sinni og tveim ungum börnum. Mennirnir voru vopnaðir haglabyssu. Þeir neituðu sök við þingfestingu málsins í gær.

Í ákærunni segir að þeir hafi ætlað að brjóta sér leið inn í húsið og ráðast með ofbeldi á heimilisföðurinn. Hafi tveir þeirra skotið hvor sínu skotinu í útidyrahurð á heimilinu. Einn fjórmenninganna stóð á verði og lét hina vita þegar hann sá til lögreglunnar á leið á vettvang. Þá flúðu mennirnir en náðust skömmu síðar.

Þeir eru ákærðir fyrir að hafa stofnað lífi og heilsu íbúa hússins í augljósan háska.

Heimilisfaðirinn og sambýliskona hans gera hvort um sig einkaréttarkröfu á hendur fjórmenningunum um miskabætur upp á 1,2 milljónir króna.

Einn fjórmenninganna er jafnframt ákærður fyrir að hafa kýlt lögreglumann í andlitið sama dag og árásin átti sér stað. Lögreglumaðurinn fékk bæði sár og mar á nef.

Síðastnefndi maðurinn er loks ákærður, ásamt manni sem ekki tók þátt í skotárásinni, fyrir rán í 11-11 verslun í Skipholti í ágúst 2009, þar sem þeir ógnuðu grímuklæddir tveimur starfsmönnum verslunarinnar með hnífum og höfðu tíu þúsund krónur á brott með sér. Sjötti maðurinn er ákærður fyrir að hafa liðsinnt þeim við ránið með því að aka þeim á vettvang, vitandi að þeir ætluðu að fremja rán í versluninni. Hann beið meðan þeir rændu hana og ók þeim svo á brott.

Kaupás gerir kröfu um að ránsmennirnir greiði níu þúsund krónur í miskabætur.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×