Innlent

Stærri skip sem stoppa lengur

Alls eru 63 skemmtiferðaskip nú þegar bókuð um Faxaflóahafnir næsta sumar, á tímabilinu maí til loka september.

Í fyrra voru skipin 73. Ágúst Ágústsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna reiknar ekki með að fjöldi skipa í ár nái þeirri tölu þó einhverjar pantanir eigi eftir að skila sér. Farþegafjöldi verði þó svipaður. „Við eigum von á færri skipum en stærri. Farþegafjöldinn er áætlaður um 68.000 manns í ár en var 70.000 í fyrra.“

Auk þess að skipin eru að stækka segir Ágúst ástæðu færri bókana þetta árið um Faxaflóahafnir geta meðal annars verið að ferðir dreifist öðruvísi á hafnir landsins. Útlit fyrir árið 2012 sé gott. „Nú þegar hafa yfir 40 skip bókað sig fyrir 2012. Eins er sú breyting að verða síðustu ár að skipin stoppa yfir nótt og fara á fleiri hafnir á landinu. Farþegarnir skilja þá eftir sig meira af peningum.“

Stærsta skipið sem kom hingað á síðast ári, Crown Princess, var 113.651 lestir, með á fjórða þúsund farþega innanborðs og 1.200 manna áhöfn. Í sumar er von á enn stærra skipi, Azura, sem er 116.000 lestir að stærð. - rat




Fleiri fréttir

Sjá meira


×