Erlent

Franska ríkið ætlar að greiða fyrir brjóstaaðgerðirnar

Frönsk stjórnvöld ætla að greiða aðgerðir við að láta fjarlægja sílikon úr brjóstum fyrir 30 þúsund konur þar í landi. Konurnar eru allar með silikon sem óttast er að sé gallað og geti hugsanlega lekið.

Tugþúsundir kvenna víðsvegar um Evrópu og í Suður-Ameríku eru með sílikon af þessu tagi, eftir því sem AP fréttastofan fullyrðir. Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis sagði frá því í gær að þegar fréttirnar bárust hingað til Íslands hringdu fjölmargar konur í lýtalækna sína til þess að afla sér upplýsinga.

Meira en 1000 sílíkonpúðar hafa sprungið í Frakklandi og það varð til þess að Xavier Bertrand heilbrigðisráðherra ákvað að franska ríkið myndi taka á sig allan kostnað við að fjarlægja sílíkonið, þótt það sé afar kostnaðarsamt.

Hér á Íslandi segist landlæknir fylgjast náið með framvindu mála í nágrannalöndum okkar. Tillögur um á hvern hátt eigi að bregðast við hér á landi séu nú til skoðunar innan embættisins í samvinnu við viðeigandi fagfólk og stofnanir. Landlæknir bendir þeim konum sem hafa áhyggjur vegna þessa á að leita til læknis síns.

Sílikonpúðarnir sem um ræðir eru framleiddir í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×