Lífið

Kemur korteri fyrir jól

Óttar Guðnason er að vinna við kvikmyndina The Numbers Station sem er að mestu leyti tekin upp á Nató-hervelli. Kvikmyndin skartar John Cusack og Malin Akerman í aðalhlutverkum.
Óttar Guðnason er að vinna við kvikmyndina The Numbers Station sem er að mestu leyti tekin upp á Nató-hervelli. Kvikmyndin skartar John Cusack og Malin Akerman í aðalhlutverkum.
Kvikmyndatökumaðurinn Óttar Guðnason er um þessar mundir við störf í Suffolk á Englandi en hann stjórnar kvikmyndatökunum á kvikmyndinni The Numbers Station sem skartar John Cusack í aðalhlutverki. Myndin er tryllir í anda Bourne-kvikmyndanna.

„Flestir tökustaðirnir eru á gömlum Nato-hervelli sem búið er að breyta í neðanjarðarbyrgi,“ segir Óttar Guðnason kvikmyndatökumaður.

Nýjasta verkefni hans er kvikmyndin The Numbers Station eftir danska leikstjórann Kasper Barfoed. Myndin skartar John Cusack og Malin Akerman í aðalhlutverkum en Cusack hefur um árabil verið einn vinsælasti leikari Hollywood. Akerman hefur smám saman verið að skríða upp á stjörnuhimininn, lék meðal annars á móti Ben Stiller í gamanmyndinni The Heartbreak Kid. Óttar er búinn að vera í tvo mánuði á Englandi og tökur hafa gengið mjög vel, eru rúmlega hálfnaðar. „Við erum á áætlun og það er stefnt að því að klára 22. desember. Ég kem því heim korteri fyrir jól, á pantað flug klukkan 13 frá Heathrow. Ætli maður endi ekki bara í jólakettinum í ár.“

Óttar segir verkefnið hafa komið í kjölfarið á kvikmynd Baltasars Kormáks, Inhale, sem Barfoed sá og hreifst af. „Þetta er sæmilega stór mynd í sniðum, framleiðslukostnaðurinn er vel á annan milljarð,“ segir Óttar en það eru bræðurnir Sean og Bryan Furst sem framleiða hana. „Þetta eru sömu aðilar og eiga endurgerðarréttinn að Mýrinni eftir Balta,“ útskýrir Óttar en einvalalið kvikmyndagerðarmanna kemur að gerð hennar. „Sá sem stjórnar áhættuatriðunum er Greg Powell og er almennt talinn vera sá besti í sínu fagi og tæknibrelluliðið kemur allt frá kvikmynd Ridley Scott, Prometheus,“ segir Óttar en eins og flestum ætti að vera kunnugt um fóru tökur á þeirri mynd fram hér á landi. „Þjóðarstoltið gerði nú svolítið vart um sig þar sem þeir voru algjörlega dolfallnir yfir landi og þjóð.“

Til stóð að John Cusack og Óttar ynnu saman að gerð kvikmyndarinnar Stopping Power árið 2007 sem Jan de Bont átti að leikstýra. Hins vegar mistókst að fjármagna kvikmyndina á síðustu stundu og því var öllu skellt í lás þrátt fyrir að Óttar og Cusack væru búnir að taka upp opnunaratriðið. „Í dag þykir hreinlega kraftaverk að ná svona óháðum kvikmyndum saman þar sem gríðarlega erfitt er að koma höndum yfir fjármagn. Það mátti litlu muna að þessi mynd félli saman fyrir rúmum mánuði en sem betur fer gekk fjármögnunin eftir og við fengum að halda okkar striki.“

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.