Lífið

Atvinnumaður í spurningagerð

Stefán Pálsson varð atvinnumaður í spurningagerð en ekki í fótbolta.
Stefán Pálsson varð atvinnumaður í spurningagerð en ekki í fótbolta. fréttablaðið/gva
„Maður semur spurningar á daginn og kennir í bjórskóla á kvöldin. Ef einhver hefði sagt mér þetta þegar ég var nítján ára þá hefði ég hlegið,“ segir Stefán Pálsson, atvinnuspurningahöfundur.

Hann samdi spurningarnar fyrir Gettu betur-spilið sem er nýkomið út. Tíu ár eru liðin frá því að síðasta spil kom út og hefur nýja útgáfan að geyma tvö þúsund spurningar. Stefán semur einnig spurningar fyrir sjónvarpsþáttinn Ha? á Skjá einum og hefur aðstoðað við að semja spurningar fyrir Útsvarið í Sjónvarpinu. Að auki er hann duglegur við að halda pöbba-spurningakvöld.

„Draumurinn um að verða atvinnumaður í fótbolta rættist ekki en þetta kom þá í staðinn,“ segir Stefán, ánægður með starf sitt.

Með dugnaði sínum gerir hann einnig harða atlögu að sæmdarheitinu „Spurningahöfundur Íslands“. „Maður hefur notað þennan titil í gamni um Ólaf Bjarna Guðnason, aðalspurningahöfundinn í Útsvari. Hann hefur samið fyrir Meistarann og hinar og þessar keppnir en maður gerir alvarlega atlögu að titlinum.“

Stefán, sem er sagnfræðingur að mennt, hefur lengið stundað spurningagerð. Hann samdi spurningar fyrir fótboltaspil og var dómari í Gettu betur í tvö ár. Spurður hvort hann verði aldrei þreyttur á þessu segir hann: „Er þetta ekki eins og með flest annað? Maður verður bara betri með æfingunni. En ég skal viðurkenna að þegar maður fer í fjölskylduboð og einhver fær þá sniðugu hugmynd að fara í spurningaspil, þá fer maður bara að hjálpa til við að vaska upp.“- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.