Lífið

Listfræðinemar stofna gallerí

Viktoría og félagar eru himinlifandi með góðar móttökur við framtakinu.
Viktoría og félagar eru himinlifandi með góðar móttökur við framtakinu.
„Okkur hefur verið tekið opnum örmum," segir Viktoría Jóhannsdóttir Hjördísardóttir, listfræðinemi og einn stofnenda hins glænýja Artíma gallerís.

Listfræðinemar við Háskóla Íslands tóku sig til á haustmánuðum og opnuðu nýtt gallerí, sem þeir sjá sjálfir alfarið um að reka.

„Listfræðin er tiltölulega nýtt nám hjá HÍ og það hefur í raun vantað verklegt nám inn í námið frá upphafi. Þessi hugmynd hefur verið til lengi en alltaf bara á því stigi. Í haust var svo bara rétta fólkið á rétta staðnum og við ákváðum að kýla á að opna gallerí."

Rekstur gallerísins er þannig upp byggður að listfræðinemarnir fá að spreyta sig á sýningarstjórn og öllu því sem tengist uppsetningu á listasýningu og fá í leiðinni dýrmæta reynslu sem nýtist þeim í áframhaldandi námi og starfi. Nemendur Listaháskóla Íslands eru meðal þeirra sem hafa sýnt verk sín í salnum, en mikil vöntun hefur verið á sýningarrými fyrir ungt listafólk.

Viktoría segir viðtökurnar hafa verið framar björtustu vonum. „Það var mikil þörf fyrir þetta, við fundum það um leið og fórum að ræða hugmyndina við fólk í myndlistargeiranum. Það sýnir sig líka í því að við erum búin að bóka sýningar fram í maí á næsta ári og mikill fjöldi fólks hefur sýnt þessu áhuga og mætt á þessar tvær sýningar sem við höfum verið með."

Næsta sýning Artíma gallerís verður opnuð á föstudaginn kl. 17 og hvetur Viktoría allt listaáhugafólk til að leggja leið sína að Smiðjustíg 10 þar sem salurinn er til húsa. -bb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.