Lífið

Þrjár konur á ferðalagi

Danshöfundur og dansari Dansverkið Á er annað verk Valgerðar. Hún hlaut Grímuverðlaunin fyrir verk sitt Eyjaskegg.
Danshöfundur og dansari Dansverkið Á er annað verk Valgerðar. Hún hlaut Grímuverðlaunin fyrir verk sitt Eyjaskegg. Fréttablaðið/anton
Dansverkið Á eftir Valgerði Rúnarsdóttur verður frumsýnt í Norðurpólnum annað kvöld. Í því segir frá ferðalagi þriggja kvenna.

„Þetta er saga þriggja kvenna á ferðalagi, þær eru ólíkar og hafa mismunandi væntingar til ferðarinnar," segir Valgerður Rúnarsdóttir, dansari og danshöfundur. Annað kvöld verður frumsýnt dansverkið Á eftir hana. Auk Valgerðar dansa með henni í verkinu þær Snædís Lilja Ingadóttir og Unnur Elísabet Gunnarsdóttir.

„Eins og er algengt í nútímadansi þá er verkið náið samstarf okkar þriggja þó að hugmyndin sé komin frá mér. Við skoðuðum ferðalagið, hvað ferðalangur skilur eftir á brottfararstað og hvað bíður hans," segir Valgerður sem sjálf hefur verið á miklum ferðalögum undanfarin fjögur ár. En á því tímabili hefur hún verið sjálfstætt starfandi dansari eftir fimm ára feril með Íslenska dansflokknum.

„Það var frábær reynsla að vera með Íslenska dansflokknum en Ísland er lítið land og mig var farið að langa að gera eitthvað nýtt," segir Valgerður, sem hefur meðal annars unnið mikið með danshöfundinum Sidi Larbi Cherkaou sem er einn fremsti nútímadanshöfundur Evrópu.

„Hann er afar góður listamaður og danshöfundur og frábær manneskja þannig að það hefur verið mjög gaman að vinna með honum. Hann er í fremstu röð danshöfunda í Evrópu og verkefnin eru því afar fjölbreytt." Síðasta verkefni Valgerðar með Cherkaou var danshlutverk í kvikmyndinni Önnu Kareninu.

„Það var ný reynsla í reynslubankann, ég hef tekið þátt í kvikmyndaverkefnum áður, en þetta var miklu umsvifameira," segir Valgerður, sem dansar í nokkrum stórum dansatriðum í myndinni.

Eftir áramót eru frekari verkefni með Cherkaou á döfinni auk þess sem Valgerður heldur áfram að starfa með Ernu Ómarsdóttur, dansara og danshöfundi.

Valgerður segir gaman að spreyta sig í hlutverki danshöfundarins.

„Það er töluvert ólíkt að halda utan um allt sjálfur í stað þess að vera að vinna hjá öðrum, en það er gaman að tilbreytingunni." Þess má geta að verkið Á er annað verk Valgerðar sem áður hefur samið verkið Eyjaskegg sem hún hlaut Grímuverðlaun fyrir.

Þrjár sýningar verða á verkinu Á, 1. desember, 2. og 4. desember. Sýnt er í Norðurpólnum og hefjast sýningar klukkan átta. Tónlist verksins er í höndum Þorgríms Andra Einarssonar.

sigridur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.