Lífið

Tileinkuðu Magneu sigurinn

Krökkunum úr Skrekk-hópi Háteigsskóla var vel fagnað í skólanum þegar hópurinn var heiðraður og skólastjórinn afhenti þeim blóm af þessu tilefni.
Fréttablaðið/Valli
Krökkunum úr Skrekk-hópi Háteigsskóla var vel fagnað í skólanum þegar hópurinn var heiðraður og skólastjórinn afhenti þeim blóm af þessu tilefni. Fréttablaðið/Valli
„Af því að Magnea er einfaldlega besti íslenskukennarinn á landinu og við vildum skila þessari kveðju til hennar. Við vorum ótrúlega ánægð með að geta gert það og að hún skyldi vera að horfa á,“ segja þær Margrét Ósk Einarsdóttir, Þorbjörg Tinna Hjaltalín og Eglé Sipaviciute.

Þær tóku allar þát í siguratriði hæfileikakeppninnar Skrekks sem að þessu sinni kom frá Háteigsskóla. Hópurinn ákvað að tileinka sigurinn Magneu Hrönn Stefánsdóttur, kennara í skólanum, sem greindist með krabbamein skömmu áður en keppnin fór fram.

Stelpurnar viðurkenna að fréttirnar af veikindum Magneu hafi haft mikil áhrif á nemendurna, hún sé ákaflega vel liðin meðal þeirra. Og þær vonast til að hún nái bata sem allra fyrst, hennar sé sárt saknað. Þær vildu nýta tækifærið og koma á framfæri kærri kveðju til Magneu í Fréttablaðinu – henni er hér með komið á framfæri.

Stelpurnar viðurkenna að þeim líði næstum eins og þjóðhetjum á göngum skólans. „Við erum allavega enn þá með medalíuna um hálsinn.“ Og þær segja að leiðbeinandi þeirra, Kolbrún Anna Björnsdóttir, eigi mikinn heiður skilinn, hún hafi sýnt þeim ótrúlega þolinmæði þegar þau hafi kannski verið á verstu stigum gelgjunnar, eins og þær komast sjálfar að orði. „Hún er drottningin, ekki nokkur spurning. Og það er ótrúlegt að hún skuli hafa tekið sér allan þennan tíma í þetta,“ segja þær.

Og þegar talið berst að stóru stundinni í Borgarleikhúsinu segja stelpurnar að sigurtilfinningin í Borgarleikhúsinu hafi verið ólýsanleg og spennan yfirþyrmandi, ekki síst þegar búið var að tilkynna þriðja og annað sætið. „Þetta var tvímælalaust ein af bestu stundunum í lífi okkar.“ -fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×