Lífið

Varð óvænt andlit Nikita

„Ég vann snjóbrettakeppni Nikita í Big Bear Lake í Kaliforníu. Eftir það buðu þau mér ókeypis föt frá fyrirtækinu í heilt ár,“ segir Gabrielle Maiden, fyrirsæta íslenska fatamerkisins Nikita.

Þetta var fyrir sex árum og hún aðeins átján ára. Að ári liðnu var henni boðinn samningur til tveggja ára, þess efnis að keppa í snjóbrettaliði Nikita og að sitja fyrir í myndatökum. Hér fyrir ofan má sjá stutt myndband sem var tekið fyrir Nikita fyrir tveimur árum.

Gabrielle hefur ferðast til San Francisco, Portúgal, Berlín, Barcelona, Vancouver, Mexíkó og Miami með Nikita. Hún hefur komið til Íslands tvisvar á ári að jafnaði undanfarin fjögur ár. Í þetta skiptið hefur hún dvalið í mánuð.

„Ég er alltaf að framlengja og verð líklega á landinu út janúar. Ég fer til Hamborgar í desember með Nikita og sýni snjóbrettin, sem þau eru nýbyrjuð að framleiða. Það verður gaman að upplifa jólin og áramótin hér. Ég er svo hrifin af fólkinu og listrænu orkunni á Íslandi.“

Hún nýtur þess að semja tónlist með íslenskum vinum sínum. Á Iceland Airwaves-hátíðinni í október flutti hún frumsamin lög ásamt vinkonu sinni Rakel Mjöll, söngkonu hljómsveitarinnar Útidúr, á „off venue“ tónleikum á Hemma og Valda.

„Það voru fyrstu tónleikar ævi minnar og ég var mjög hrædd.“

Einnig hefur hún samið tónlist með vini sínum Unnsteini Manuel Stefánssyni, söngvara Retro Stefson (hægt er að hlusta á eitt lag hér á YouTube). Þessa stundina vinna þær Rakel að tónlist með Stefáni Finnbogasyni í hljómsveitinni Sykur.

Tónlistin er í blóðinu því faðir Gabrielle var í hljómsveitinni Rufus. Hljómsveitin sú er þekktust fyrir smelli á borð við Tell Me Something Good, sem þeir fluttu ásamt söngkonunni Chaka Kan.

„Pabbi veitir mér mikinn innblástur bæði í tísku og tónlist. Hann ól mig upp með því viðhorfi að líta til fortíðar.“

Hún heillast mikið af anda áttunda áratugarins og ber fataval og fas hennar þess merki.

hallfridur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.