Lífið

Hellisbúinn loksins samþykktur í Kína

Óskar Eiríksson, framkvæmdastjóri Leikhúsmógulsins ehf., fékk tvisvar höfnun á leikritinu Hellisbúanum frá Kína en eftir nokkrar breytingar hefur verkið loksins verið samþykkt. Með honum á myndinni er systir hans og annar stjórnenda fyrirtækisins, Signý Eiríksdóttir. Fréttablaðið/valli
Óskar Eiríksson, framkvæmdastjóri Leikhúsmógulsins ehf., fékk tvisvar höfnun á leikritinu Hellisbúanum frá Kína en eftir nokkrar breytingar hefur verkið loksins verið samþykkt. Með honum á myndinni er systir hans og annar stjórnenda fyrirtækisins, Signý Eiríksdóttir. Fréttablaðið/valli
„Eftir nokkrar breytingar hefur leikgerðin loksins verið samþykkt í Kína," segir Óskar Eiríksson, framkvæmdastjóri Leikhúsmógulsins ehf. sem ætlar að setja upp leikritið Hellisbúann í Kína á næstu mánuðum.

Tvö og hálft ár eru síðan Leikhúsmógullinn byrjaði að vinna í að koma Hellisbúanum að í Kína. Leikritið átti upphaflega að vera sett upp í desember á þessu ári en fresta þurfti frumsýningu um nokkra mánuði þar sem kínversk stjórnvöld voru ekki alveg sátt við handritið.

„Allar leikgerðir sem settar eru upp í landinu þurfa að vera lesnar yfir af fulltrúum stjórnvalda í Kína. Það voru einhver atriði sem fóru í taugarnar á þeim og við fengum höfnun fyrst í sumar," segir Óskar. Þá voru nokkrar breytingar gerðar á handritinu en allt kom fyrir ekki og Kínverjar höfnuðu handritinu í annað sinn.

„Við vorum svo heppin að fá eitt stærsta nafnið í leikhúsgeiranum þarna úti, David Lightbuddy, til samstarfs við okkur en hann er meðal annars að sjá um uppfærslu Mamma Mia í Kína núna við góðar undirtektir," segir Óskar, en samstarfsaðilar hans úti sáu um að breyta handritinu í annað sinn.

„Ég veit ekki nákvæmlega hvaða atriði þeir gerðu athugasemdir við en mig grunar að það hafi kannski eitthvað með kynlífsumræðuna í leikritinu að gera," segir Óskar, en kínversk útgáfa af Hellisbúanum verður frumsýndur í apríl á næsta ári. Næsta skref hjá Óskari er að koma leikritinu á fjalirnar í Kóreu og Ástralíu á næsta ári.- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.