Innlent

Níu dauðsföll vegna offitu á Íslandi

Átta konur og einn karl hafa dáið úr offitu hér á landi síðan árið 2002, samkvæmt dánarmeinaskrá Landlæknis. Þrjár konur létust árið 2009 og er það mesti fjöldi sem skráður hefur verið. Ekki eru komnar tölur frá Landlækni fyrir árið 2010.

Íslenska þjóðin er sú feitasta á Vesturlöndum á eftir þeirri bandarísku og í sjötta sæti af ríkjum OECD. Árið 1990 voru átta prósent þjóðarinnar of feit og var hlutfallið orðið 12 prósent árið 2002. Hlutfallið hefur hækkað mikið síðan þá og árið 2009 mældist 21 prósent Íslendinga með offitu.

Vilmundur Guðnason, prófessor við Háskóla Íslands og forstöðulæknir Hjartaverndar, segir að ef ekkert verði að gert megi búast við hrinu ótímabærra dauðsfalla á næstu árum og áratugum.

„Það getur orðið sprenging í hjartaáföllum á næstu árum. Á því er ekki nokkur einasti vafi að ef ekki verður brugðist við þessu stöndum við frammi fyrir ótímabærum dauðsföllum í auknum mæli,“ útskýrir Vilmundur. Hann segir dauðsföllum af völdum hjartaáfalls þó hafa fækkað á síðustu árum og það skýrist langmest af minni neyslu kólesteróls og mettaðrar fitu, breytingar á reykingavenjum og lækkun blóðþrýstings.

„Þetta voru um 300 dauðsföll á ári sem spöruðust við breytingu á lífstíl. En þyngdin vann þar á móti,“ segir hann. „Menn verða að átta sig á því að offitan er hinn þögli dauði.“

Vilmundur hefur séð mikla fjölgun offitusjúklinga á síðustu árum og þá sér í lagi fjölgun þess fólks sem er lífshættulega feitt. „Það er fólk sem getur ekki hreyft sig, getur ekki séð um sig sjálft og er sennilega um eða yfir 200 kíló. Maður hefur séð mikla fjölgun einstaklinga með það vandamál.“

Um 350 manns eru nú á biðlista eftir því að komast í offitumeðferð á Reykjalundi, eins og greint var frá í fréttum Stöðvar 2 í síðustu viku. Um 100 manns geta verið í fullri meðferð í einu, en stofnunin fær um 250 til 270 beiðnir á hverju ári. Dæmi eru um að fólk sem vill komast í meðferð sé í þrefaldri kjörþyngd, en sem stendur er um 17 mánaða bið eftir meðferð.- svAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.