Skoðun

Opið bréf til þingmanna Samfylkingarinnar

Inga Sigrún Atladóttir skrifar
Á landsfundi Samfylkingarinnar helgina 21.-23. október voru kynntar ýmsar nýjungar til að bæta flokkstarfið. Enn fremur var farið yfir glæsilegan árangur í stjórnun landsmálanna og gerð grein fyrir ýmsum erfiðum hindrunum sem hafa verið á leiðinni. Fundurinn sýndi að flokkurinn er samstæður og sterkur, tilbúinn í ný verkefni.

Vikuna eftir landsfundinn birtust sláandi tölur frá Hagstofunni um stöðu íslenskra heimila. Rúmlega helmingur þeirra á erfitt með að ná endum saman um hver mánaðamót og hefur hlutfalliðaukist stöðugt frá 2007. Við aldursgreiningu niðurstaðnanna kom í ljós að aldurshópurinn 30-39 ára var í mestum vandræðum. Í ljósi þessara niðurstaðna tel ég það skyldu Samfylkingarinnar að skoða mjög gagnrýnið hvers vegna aðgerðir til varnar heimilum landsins hafi ekki skilað betri árangri.

Nýlega las ég kanadíska grein sem fjallaði um nútíma stjórnmálaumræðu og áhrif fjármálamarkaðarins á hana (Soederberg, 2010). Niðurstaðan var sú að eftir fjármálahrunið 2008 hafa stjórnmálamenn um allan heim þaggað niður umræðu um raunverulegar orsakir og afleiðingar hrunsins. Stjórnmálamenn hafa talað um hrun fjármálageirans sem eðlilega samfélagslega afleiðingu án þess að tengja hana við eigin pólitíska sýn eða hugmyndafræðilegar áherslur. Stjórnmálamenn hafa haft tilhneigingu til að miða aðgerðir sínar við að fjármálastofnanir séu fórnarlömb hrunsins en ekki orsakir.

Í ræðu á landsfundinum lofaði formaður Samfylkingarinnar okkur samflokksmönnum sínum raunverulegri sókn til betri lífskjara og manneskjulegra samfélags. Ég veit að hún er manneskja til að efna þetta loforð og vegna þess styð ég hana til forystu. Í ljósi orða formannsins og einlægri trú á að Samfylkingin sé raunverulegur jafnaðarmannaflokkur vænti ég þess að þingmenn staldri við og miði aðgerðir á seinni hluta kjörtímabilsins við það 51% landsmanna sem ekki nær endum saman.




Skoðun

Sjá meira


×