Skoðun

Hvað er félagsmiðstöð?

Í flestum sveitarfélögum landsins er að finna félagsmiðstöð sem heldur úti félagsstarfi fyrir börn og unglinga. Þó að almennt þyki sjálfsagt að halda úti félagsmiðstöð í hverju bæjarfélagi þá ber oft ekki mikið á því starfi sem fer þar fram og vitneskja almennings um starfið og eðli þess oft af skornum skammti. Innan veggja félagsmiðstöðva út um allt land má finna fjölbreytt og blómlegt starf sem stuðlar að auknum félagsþroska hjá því unga fólki sem erfa mun þetta land.

Helstu markmið félagsmiðstöðva almennt eru að auka félags- og lýðræðisþátttöku ungs fólks, sinna forvörnum og veita börnum og unglingum stuðning og tækifæri til að sinna hugðarefnum sínum ásamt margvíslegum öðrum undirmarkmiðum.

Helsti markhópur félagsmiðstöðva landsins eru unglingar á aldrinum 13-16 ára en þó sinna félagsmiðstöðvar oft bæði yngri börnum og eldri ungmennum. Í félagsmiðstöðvum eru þó ekki bara unglingar því að þar er einnig að finna fjölda hæfileikaríkra starfsmanna. Fagþekking þess mannauðs sem vinnur í dag í félagsmiðstöðvum hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum og síðustu rannsóknir í þessum málaflokki sýna að félagsmiðstöðvastarf á Íslandi er í fararbroddi í Evrópu. Það er jafnframt von um að fagþekking sem og fagmennska í starfi félagsmiðstöðva muni aukast enn frekar á næstu árum því félags- og tómstundafræði er orðin vinsæl námsbraut við Háskóla Íslands.

Í dag, miðvikudaginn 2. nóvember, munu félagsmiðstöðvar landsins opna dyr sínar fyrir foreldrum, öðrum aðstandendum unglinganna og almenningi og kynna það starf sem fer þar fram. Unglingar og starfsfólk munu taka höndum saman og svara spurningum gesta og gangandi, sýna þá aðstöðu sem er fyrir hendi í félagsmiðstöðvunum og gefa gestum innsýn í viðfangsefni í starfinu. Fyrir hönd barna, unglinga og starfsfólks félagsmiðstöðva á Íslandi hvet ég þig til að nýta þér einstakt tækifæri og líta í heimsókn í félagsmiðstöð í kvöld.




Skoðun

Skoðun

Tjáningar­frelsi

Laufey Brá Jónsdóttir,Sigríður Kristín Helgadóttir,Þorvaldur Víðisson skrifar

Sjá meira


×