Handbolti

Dagur: Verður auðveldara að mæta Kiel en Saarlouis

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur hefur náð ótrúlegum árangri með lið Füchse Berlin.nordicphotos/bongarts
Dagur hefur náð ótrúlegum árangri með lið Füchse Berlin.nordicphotos/bongarts
Stórslagur helgarinnar í þýsku úrvalsdeildinni verður viðureign Füchse Berlin og Kiel. Þjálfarar liðanna eru báðir íslenskir – þeir Dagur Sigurðsson og Alfreð Gíslason – en þar að auki eru landsliðsmennirnir Aron Pálmarsson (Kiel) og Alexander Petersson (Füchse Berlin) mikilvægir leikmenn hjá liðunum.

Leiksins er beðið með mikilli eftirvæntingu, en Kiel er á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir níu leiki. Füchse Berlin er hiins vegar geysisterkt á heimavelli og hefur unnið alla þrjá deildarleiki sína til þessa. Það er því ljóst að eitthvað verður að láta undan.

Max Schmeling-höllin í Berlínarborg verður troðfull á morgun, en hún tekur 8.500 áhorfendur í sæti. Í dag eru þetta tvö stórveldi í þýskum handbolta en saga liðanna er gjörólík. Kiel hefur verið við toppinn í fjöldamörg ár og unnið marga titla, bæði heima fyrir og í Evrópu.

Fyrir aðeins sex árum var meðalfjöldi áhorfenda á leikjum Füchse Berlin í C-deildinni um 350 manns. Síðan þá hefur uppgangur liðsins verið með ólíkindum og kom liðið öllum á óvart á síðasta tímabili er það hafnaði í þriðja sæti með jafn mörg stig og Kiel.

Lærisveinar Dags hafa sýnt að þeir geta unnið hvaða lið sem er á heimavelli. Það gerðu þeir í september í fyrra er þeir unnu þriggja marka sigur á Kiel, 26-23. Átti það eftir að gefa tóninn fyrir frábært tímabil.

Það er engum blöðum um það að fletta að Kiel er í dag sterkasta handknattleikslið Þýskalands. Liðið virðist ógnarsterkt og hefur varla stigið feilspor. Það er greinilegt að Alfreð Gíslason ætlar að endurheimta titilinn úr greipum Hamborgar, sem hafði mikla yfirburði í deildinni í fyrra. Ekkert lið hefur áður unnið fyrstu níu deildarleiki sína og árangurinn því met.

En þrátt fyrir það virðist Dagur nálgast leikinn á sinn máta. Hann segir að það hafi verið erfiðara að mæta neðrideildarliðinu Saarlouis í þýsku bikarkeppninni á dögunum, sem Füchse Berlin vann örugglega, en stórliði Kiel í toppslag deildarinnar.

„Það er ekkert nýtt við Kiel. Við höfum margoft spilað við liðið og þekkjum það inn og út. Það mun ekkert koma okkur á óvart í þessum leik,“ sagði Dagur við þýska fjölmiðla. „Við þekktum hins vegar ekkert til Saarlouis. En það er ljóst að Kiel er gríðarlega sterkt um þessar mundir.“

Leikurinn hefst klukkan 16.30 á morgun og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×