Erlent

Nýtt norskt olíuævintýri

Verðmæti undir sjávarbotni Olíufélög hafa fundið ríkar olíulindir í Norðursjó. Heildarverðmæti undir nýju svæði nemur samsvarandi upphæð og hálfur olíusjóður Norðmanna. NordicPhotos/AFP
Verðmæti undir sjávarbotni Olíufélög hafa fundið ríkar olíulindir í Norðursjó. Heildarverðmæti undir nýju svæði nemur samsvarandi upphæð og hálfur olíusjóður Norðmanna. NordicPhotos/AFP
„Nú erum við komnir með lykilinn að svæðinu og þurfum bara að halda áfram."

Þetta sagði Ashley Heppenstall, forstjóri olíufyrirtækisins Lundin í samtali við fjölmiðla í gær, eftir að rannsóknir fyrirtækisins leiddu í ljós að margfalt meiri olíu má vinna úr svæðinu en talið hafði verið. Fyrra mat gaf til kynna að þar mætti vinna 100 til 400 milljónir tunna af olíu, en nýjar rannsóknir gefa til kynna að þar gætu legið á milli 800 og 1800 milljónir tunna.

Í frétt Dagens Næringsliv segir að ríkisolíufélagið Statoil hafi einnig fundið gnægð af olíu á sama svæði og má samtals gera ráð fyrir allt að 2.600 milljónum tunna á svæðinu sem væri þá þriðja stærsta olíulind á norska landgrunninu.

Miðað við gengi gjaldmiðla og heimsmarkaðsverð á olíu væri heildarverðmæti olíunnar allt að 1.580 milljarðar norskra króna sem jafngildir helmingi af núverandi stöðu norska olíusjóðsins.

Það sem gerir fréttirnar enn betri fyrir Norðmenn er að lindin er á afar heppilegu svæði þar sem uppbygging ætti að taka skjótan tíma.

Miðað við áætlanir Lundin má gera ráð fyrir að vinnslukostnaður á svæðinu verði töluvert minni en á öðrum svæðum á norska landgrunninu þar sem uppbygging á sér stað. Líklega mun kostnaðurinn við hvern olíulítra verða um 10 Bandaríkjadalir á hverja tunnu, en á öðrum rannsóknarsvæðum gæti samsvarandi kostnaður numið 40 til 60 dölum.

Þrátt fyrir þessa miklu bjartsýni trúa Lundin-menn að enn muni rætast úr. Heppenstall sagðist þess fullviss að leitarteymi fyrirtækisins hitti aftur í mark og Hans Christen Rönnevik, leitarstjóri tekur í sama streng.

„Við munum bora þrjár holur á sama svæði næsta ár, og það mun koma mér verulega óvart ef við smellhittum ekki í að minnsta kosti tveimur þeirra."

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×