Lífið

Kínverskir úrvalsnemendur klára BA-próf í íslensku

Gísli Hvanndal útskrifar sextán Kínverja með BA-gráðu í íslensku við Háskólann í Beijing næsta vor.
Gísli Hvanndal útskrifar sextán Kínverja með BA-gráðu í íslensku við Háskólann í Beijing næsta vor. fréttablaðið/stefán
Umvafinn nemendum Hér er Gísli ásamt nemendum sínum og þáverandi sendherra Íslands, Gunnari Snorra Gunnarssyni, fyrir utan skólastofuna í Beijing.
„Þeir eru margir í fjölskyldum nemendanna sem hneykslast á þeim að eyða tíma í að læra minnsta tungumál í heimi. Þau eru hins vegar alsæl og finnst námið skemmtilegt,“ segir Gísli Hvanndal, sem útskrifar sextán nemendur með BA-gráðu í íslensku við Háskólann í Beijing næsta vor.

Gísli hefur verið búsettur í Kína undanfarin þrjú ár en það var af einskærri ævintýraþrá sem hann sótti um vinnuna. „Ég var að kenna útlendingum íslensku í Alþjóðahúsinu og frétti þar að Menntamálaráðuneytið væri að leita eftir kennara í Kína. Ég ætlaði alltaf bara að prófa þetta í eitt ár en þau eru nú orðin þrjú,“ segir Gísli, sem er staddur hér á landi í fríi.

Gísli starfar við Háskóla erlendra fræða við Beijing-háskóla, eins og það kallast á íslensku, en í skólanum eru kennd hátt í 50 tungumál. Nemendurnir eru valdir inn af kostgæfni og aðeins þeir bestu fá pláss við skólann. „Skólinn er eins konar útungunarvél fyrir kínversku utanríkisþjónustuna og státar sig af því að hafa útskrifað 500 sendiherra og yfir þúsund diplómata.“

Nemendur Gísla eru fæddir "89 og "90 og segir Gísli að um hóp úrvalsnemenda sé að ræða. Þau eru orðin seig í íslenskunni og flest hafa komið hingað í skiptinám. „Þetta er góður hópur en erfiðast þykir þeim að læra framburðinn. Kennslan fer öll fram á íslensku núna og gengur það mjög vel,“ segir Gísli sem sjálfur talar ekki kínversku og fór kennslan því fram á ensku fyrst um sinn.

Hann man vel eftir þeim degi þegar námið byrjaði en það var 6. október árið 2008. „Við fengum heldur dramatíska byrjun á náminu og þá var aðalgrínið í kínverska samfélaginu að Kína ætti bara að kaupa Ísland. Forsenda fyrir kennslunni breyttist því frá fyrsta degi enda hefur íslenskum fyrirtækjum í Kína fækkað á síðustu árum.“ Nemendur hans njóta líka góðs af því að læra tungumál Íslendinga. „Til dæmis þætti námið ekki frétt í stærra landi,“ segir Gísli hlæjandi og bætir við að allir nemendur hans fengu að vinna við íslenska básinn á heimssýningunni í Sjanghæ í fyrra og margir fengið að vera í starfsnámi í íslenska sendiráðinu í Beijing.

„Ég ætla að fylgja nemendum mínum eftir og vera eitt ár til viðbótar. Svo held ég að það sé komið nóg af Kína í bili og ætla að koma heim.“

alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.