Skoðun

Til umhugsunar

Bryndís Guðmundsdóttir skrifar
Sjálfstætt starfandi talmeinafræðingar starfa samhliða talþjálfun sem veitt er í skólum og stofnunum og taka við þjálfun fullorðinna eftir aðgerðir, slys eða önnur áföll, eftir útskrift. Þeir hafa góða menntun og reynslu, hver á sínu sviði, og ná góðum árangri í störfum sínum.

Á Íslandi þurfa a.m.k. 3.000 börn á aðstoð talmeinafræðings að halda. Aðkoma okkar vegna barna sem greinast með frávik í máli og tali er mjög mikilvæg til að auka tækifæri þeirra síðar á lífsleiðinni og draga úr samfélagslegum kostnaði. Sjálfstætt starfandi talmeinafræðingar voru um árabil með samning við Tryggingastofnun ríkisins, nú Sjúkratryggingar Íslands (SÍ). Sjúklingar fengu allir sömu „niðurgreiðslu“ vegna talmeinaþjónustu hjá TR.

Árið 2007 reyndi á þolmörk og allir talmeinafræðingar, nema fjórir á landsbyggðinni, sögðu sig af samningi við SÍ en m.a. var ekki tekið tillit til rekstrarkostnaðar og endurmenntunar talmeinafræðinga.

Ráðherra setti þá reglugerð sem kvað á um styrk SÍ vegna talþjálfunar til skjólstæðinga talmeinafræðinga utan samnings; 1.000 krónur fyrir fullorðna og 2.000 krónur fyrir börn, ellilífeyrisþega og öryrkja.

Frá árinu 2007 hafa SÍ greitt tæplega 4.000-6.000 kr. fyrir hvert barn sem sækir þjónustu til talmeinafræðings á samningi við SÍ. Bent var á þennan mismun á greiðslu vegna íslenskra sjúkratryggðra einstaklinga sem fengu sömu þjónustu hjá löggiltum talmeinafræðingum utan samnings. Gat það staðist lög og jafnræðisreglu að mismuna börnum gagnvart endurgreiðslu eða greiðsluþátttöku SÍ eftir því hvert þjónustan væri sótt?

Ráðherra getur valið skv. lögum um Sjúkratryggingar hvort hann setur reglugerð eða ekki og hvað hún inniheldur. Umboðsmaður barna tjáði móður að þessi mismunun á greiðslu til sjúkratryggðra barna á Íslandi, stæðist ekki ákvæði í Barnaréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna um jafnræðisreglu og að þeim sjónarmiðum yrði komið á framfæri við íslensk stjórnvöld. Einnig var bent á að tannlæknar eru ekki á samningi við SÍ en börn fá sömu endurgreiðslu hjá SÍ fyrir sömu þjónustu, þó að taxti tannlækna sé mishár. Börnum var ekki mismunað eftir fjárhag foreldra eða aðgengi að þjónustunni.

Síðustu mánuði hafa sérfræðilæknar verið utan samnings við SÍ. Það vakti athygli að strax var tilbúin reglugerð sem kvað á um að allir sjúkratryggðir einstaklingar myndu fá sömu endurgreiðslu og áður, en greiða sjálfir mismun af taxta sérfræðings.

Þá er jákvætt að SÍ gera skjólstæðingum sérfræðilækna auðvelt að sækja endurgreiðslu vegna lækniskostnaðar svo „sjúklingar verði ekki varir við samningsleysið“ eins og segir á heimasíðu SÍ. Í fjögur ár hafa skjólstæðingar talmeinafræðinga utan samnings, þurft að fara í gegnum mikið skrifræðiskerfi til að sækja sínar 1.000 eða 2.000 krónur.

Árið 2006 greiddu SÍ (TR) fyrir talþjálfun alls rúmlega 52 milljónir króna á meðan allir talmeinafræðingar voru á samningi. Upphæðin fór niður í 15,6 milljónir 2008 og í fyrra voru greiddar tæplega 27 milljónir króna.

Sjúklingar tóku á sig mismuninn, aðrir þraukuðu án þjónustu og ekki er ólíklegt að hærri kostnaði vegna sérkennslu og annarra erfiðleika sé varpað yfir á seinni ár. Dæmi eru um að einstæð móðir þurfti að velja á milli þriggja barna sinna um hvert þeirra sótti talþjálfun á hverjum tíma.

Árið 2008 lögðu SÍ línur að mati á grunnrekstrarkostnaði með samningi við sálfræðinga sem starfa með börnum og hafa sambærilega menntun og reynslu og talmeinafræðingar. Sálfræðingar fengu 8.480 kr fyrir meðferðina. Í desember 2008 fengu talmeinafræðingar 4.864,5 kr fyrir meðferðina. Munurinn hefur minnkað en tölurnar tala sínu máli.

Viðræður milli samningsaðila SÍ og velferðarráðuneytis og talmeinafræðinga utan samnings, hafa farið vel fram síðustu vikur og margt áunnist til betri vegar í samningstexta. Þó er langt því frá að tekið sé tillit til rekstrarkostnaðar. Ef farið verður inn á samning við SÍ (því það virðist vera eina leiðin til að skjólstæðingar okkar fái hærri endurgreiðslu) þýðir það umtalsverða lækkun í rekstrartekjum og önnur störf verða álitlegri.

Velferðarkerfið sem á að standa vörð um jöfnuð og rétt skjólstæðinga okkar, á ekki að mismuna heilbrigðisstéttum sem veita þjónustuna og allra síst að mismuna sjúkratryggðum börnum og sjúklingum eftir fjárhag og búsetu. Talmeinafræðingar veita mikilvæga og sérhæfða þjónustu og er orðið löngu tímabært að starfsskilyrði sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga og vinnuálag sé viðunandi.




Skoðun

Sjá meira


×