Skoðun

Álver eru engin skyndilausn

Þorsteinn Víglundsson skrifar
Í þriðju grein minni um vægi áliðnaðar á Íslandi fjalla ég um langtímaáhrif iðnaðarins hér á landi.

Því hefur gjarnan verið haldið fram að með uppbyggingu í orkutengdum iðnaði sé verið að leita skyndilausna sem á endanum skilji lítið eftir sig. Stóriðjan sé einhvers konar höfuðverkjartafla sem við grípum til þegar samdráttar verður vart í hagkerfinu. Réttara sé að beina kröftum í uppbyggingu „einhvers annars“ sem skilji eftir sig varanlega verðmætaaukningu. En stenst þessi fullyrðing?

Heildarfjárfesting við byggingu Kárahnjúka og álvers Fjarðaáls var um 266 milljarðar króna á árunum 2004-2008. Innlendur hluti þessarar fjárfestingar er talinn hafa numið 82 milljörðum króna eða innan við þriðjungi heildarfjárfestingarinnar. Þetta samsvarar að jafnaði 16 milljörðum króna á ári. Til þess að setja þetta í samhengi er hér um að ræða lítillega lægri fjárhæð en rann að jafnaði til viðhalds og uppbyggingar á vegakerfi landsmanna á sama tímabili. Vægi uppbyggingarfasa stóriðjunnar er því ekki nærri eins mikið og af er látið. Þegar öllu er á botninn hvolft er nánast hjákátlegt að kenna þessari framkvæmd um ofhitnun íslensks efnahagslífs á þessu tímabili. Þessar tölur mega sín lítils í samanburði við útlánaaukningu bankakerfisins, hækkun á markaðsvirði íbúðarhúsnæðis landsmanna og svo mætti áfram telja. Innlend rekstrarútgjöld Fjarðaáls margfalt meiri en fjárfestingarkostnaðurEn hvað er það sem uppbygging stóriðju skilur eftir sig? Ef við skoðum rekstur Fjarðaáls á árunum 2008-2010 má sjá að innlend rekstrarútgjöld álversins á þessu tímabili námu 90 milljörðum króna. Á þessum þremur árum varði fyrirtækið því hærri fjárhæð í rafmagnskaup, launagreiðslur og kaup á vörum og þjónustu en varið var í innlenda efnisþætti byggingaframkvæmda álversins og virkjunar á fimm ára byggingartíma.

Ætla má að innlendur rekstrarkostnaður Fjarðaáls verði um 1.200 milljarðar króna að núvirði á gildistíma raforkusamnings fyrirtækisins, eða sem samsvarar fimmtánföldum fjárfestingarkostnaði hér innanlands vegna verkefnisins. Svipuð mynd blasir við þegar horft er til virðisauka af áliðnaði í heild sinni, en útgjöld áliðnaðar hér á landi á síðasta ári námu alls 80 milljörðum króna. Raunar má til fróðleiks nefna að athugun á verðmætasköpun í kanadískum áliðnaði leiddi í ljós að eitt 300 þúsund tonna álver skapar ámóta mikinn virðisauka á hverju 10 ára tímabili og stofnun 750 lítilla og meðalstórra fyrirtækja hefði gert á sama tíma. Meðallíftími álvera í Kanada er í dag 50 ár.

Uppbygging áliðnaðar er því fráleitt skyndilausn. Þvert á móti er þetta uppbygging iðnaðar sem skilur eftir sig umtalsverðan virðisauka á ári hverju og mun halda áfram að gera það næstu áratugina.



Skoðun

Sjá meira


×