Skoðun

Rafmagnsvespur á göngustígum

Alma R. R. Thorarensen skrifar
Í gegnum tíðina hef ég deilt göngustígum höfuðborgarsvæðisins með flóru vegfarenda stórum og smáum í mesta bróðerni. Nú háttar svo til að annar hópur, ekki jafn velkominn fyrir mína parta, er að ryðja sér þar til rúms. Nefnilega ökuþórar svokallaðra rafmagnsvespa. Til upplýsingar er um að ræða 60 kg. farartæki sem kemst upp í 25 km/h og gengur fyrir rafmagni eins og nafnið gefur til kynna en er að öðru leyti áþekk venjulegum vespum hvað varðar hæð, breidd og hjólhaf.

Hvorki löggjafinn né framkvæmdarvaldið hafa séð ástæðu til að bregðast við tilkomu rafmagnsvespa á markað hér á landi. Ekki þarf því próf til að aka rafmagnsvespu og eru þær flokkaðar sem reiðhjól í skilningi umferðarlaga nr. 50/1987. Til samanburðar er venjulegt reiðhjól á bilinu 10-15 kg. en eigin þyngd rafmagnsvespu er 60 kg. eins og áður segir. Af þessu leiðir að rafmagnsvespur eru ekki skráningarskyldar og þarf ekki að vátryggja þær sérstaklega, svo sem gagnvart tjóni sem ökumaður kann að valda á munum eða líkama þriðja manns.

Þetta er athyglisverð staða, ekki síst í ljósi þess að 60 kg. hlutur á 25 km/h vegur í raun 600 kg. ef árekstur verður við kyrrstæðan hlut. Er þá aðeins gert ráð fyrir eigin þyngd vespunnar en til viðbótar henni hlýtur oftast að koma líkamsþyngd viðkomandi ökumanns. Ef við gefum okkur að ökumaður farartækisins sé á bilinu 40-60 kg. (enda oftast um að ræða börn og unglinga) er höggið orðið á bilinu 1 til 1,2 tonn við árekstur. Er þá ótalinn hraði og þyngd þess sem á móti kemur.

Þá kemur ennfremur í ljós að réttarstaða einstaklings sem lendir í árekstri við rafmagnsvespu er mun lakari en þess sem lendir t.d. í árekstri við ótryggða bifreið. Það háttar nefnilega svo til að hérlendis eru starfrækt samtök Alþjóðlegra bifreiðatrygginga. Er kveðið á um skylduaðild vátryggingafélaga, sem taka að sér ábyrgðartryggingar skráningarskyldra vélknúinna ökutækja í umferðarlögum. Hlutverk samtakanna er m.a. að ábyrgjast og annast uppgjör tjóna af völdum óvátryggðra ökutækja. Þetta þýðir að sá sem lendir í tjóni af völdum bifreiðar, sem einhverra hluta vegna er ekki vátryggð, á rétt á greiðslu bóta úr hendi samtakanna skv. reglugerð um lögmæltar ökutækjatryggingar.

Sá einstaklingur sem í göngutúrnum sínum verður fyrir því óláni að vera keyrður niður af rafmagnsvespu þannig að af hlýst t.d. líkamstjón getur hins vegar ekki leitað til fyrrnefndra samtaka til greiðslu bóta enda ekki um skráningarskylt ökutæki að ræða. Undir þeim kringumstæðum er ekki annað í stöðunni fyrir tjónþola en að leita í persónulegar tryggingar ökumanns vespunnar, t.d. fjölskyldutryggingu ef svo heppilega vill til að henni sé til að dreifa. Að öðrum kosti þarf tjónþoli að halda rétti sínum til streitu gagnvart tjónvaldi upp á eigin spýtur og þá með rekstri skaðabótamáls fyrir dómstólum ef svo ber undir með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn. Svo er bara að krossa fingur og vona að tjónvaldur sé gjaldfær en ekki er svigrúm til að fjalla um þátt almannatrygginga í þessari grein.

Við blasir að rafmagnsvespur eru ekki gæfulegir gestir á göngustígum og full ástæða til að grípa inn í með regluverki áður en slys ber að höndum. Það er ekki einungis sjálfsagt heldur nauðsynlegt einkum með tilliti til öryggis annarra vegfarenda ef það er virkilega meiningin að láta þá deila göngustígum landsins með eklum rafmagnsvespa.




Skoðun

Sjá meira


×