Skoðun

Hagnaður Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í þágu hverra?

Gerður A. Árnadóttir skrifar
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, HH, hefur það hlutverk að sinna heilbrigðisþjónustu við íbúa höfuðborgarsvæðisins. Fjárveitingar til stofnunarinnar hafa verið skertar eftir hrun og hluta starfsmanna verið gert að taka á sig launalækkanir. Þá hefur krafa um sparnað í rekstri dunið á starfsfólki og mikill tími og fjármagn farið í að skoða slíkar aðgerðir. Það vakti því nokkra athygli starfsfólks að rekstrarafgangur HH árið 2010 nam um 116 milljónum. Í nýlegu bréfi til starfsmanna kemur fram að hagnaður stofnunarinnar 2010 rennur ekki til starfseminnar 2011 og nýtist því ekki starfsemi HH.

Það er áhyggjuefni og undarlegt mjög að yfirstjórn HH skuli ekki nýta allt það fjármagn sem hún fær til starfseminnar í þágu íbúa höfuðborgarsvæðisins. Er það trúverðugt að ofgefið sé í fjárveitingum til HH á sama tíma og starfsfólki hefur verið gert að taka á sig kjaraskerðingar og ekki hafa fengist fjárheimildir til að sinna nauðsynlegum verkefnum í þágu almennings? Hefur stjórn stofnunarinnar misst sjónar á því hlutverki sínu að sinna þjónustu við fólk?

Umrædd staða vekur líka þær spurningar hvernig við sem erum starfsfólk HH gætum nýtt 116 milljónir í þágu heilbrigðisþjónustu við íbúa höfuðborgarsvæðisins og fullnýtt þær fjárveitingar sem sannarlega renna til stofnunarinnar.

Við gætum:

Ráðið sálfræðinga í vinnu hjá HH til að sinna geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni. Þörfin er brýn eins og dæmin sanna og brýnt að HH efli nærþjónustu sína á þessu sviði.

Ráðið félagsráðgjafa til vinnu til að sinna fjölskyldum í vanda. Starfsfólk HH sinnir í vaxandi mæli verkefnum sem félagsráðgjafi gerir enn betur. Með þessu mætti bæta þjónustu allra stétta og nýta sérhæft starfsfólk betur.

Unnið fræðsluefni fyrir notendur þjónustunnar, mikill skortur er á góðu fræðsluefni fyrir almenning um heilbrigði, sjúkdóma og lífsstíl.

Haldið námskeið fyrir foreldra barna og ungmenna um uppeldismál og heilbrigði barna og ungmenna og stutt þannig foreldra í uppeldishlutverki sínu.

Eflt forvarnar- og meðferðarhlutverk heilsugæslunnar varðandi lífsstílssjúkdóma sem verða helsta verkefni heilbrigðisþjónustunnar næstu áratugi.

Unnið að starfsendurhæfingu í gegnum HVERT-verkefnið. HVERT hefur skilað undraverðum árangri í þágu samfélagsins en nú stendur til að leggja starfsemina af í núverandi formi.

Eflt heilsugæslu í framhaldsskólum, ungu fólki til hagsbóta.

Keypt tæki og verkfæri á heilsugæslustöðvarnar. Sums staðar er grunnbúnaður eins og augn- og eyrnaskoðunartæki og blóðþrýstingsmælar orðinn gamall og lélegur og brýnt að endurnýja. Þá þarf að endurnýja minni verkfæri og bæta almennan búnað stöðvanna. Fjármagn í slíkt hefur verið vandfundið og helst að líknarfélög hafi stuðlað að því að staðan væri viðunandi.

Eflt þjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu með fræðslu til starfsfólks og breyttu vinnulagi heilsugæslunnar.

Sett á laggirnar rannsóknarstöðu(r) við Þróunarstofu HH og eflt þannig rannsóknir og þróun innan HH. Það er umhugsunarefni hversu lítið fer fyrir rannsóknum á þessari næststærstu heilbrigðisstofnun landsins og nauðsynlegt að gera þar bragarbót.

Bætt launakjör starfsfólks og leiðrétt kjaraskerðingar síðustu tveggja ára. Atgervisflótti herjar á HH og bætt kjör eru ein leið til að sporna við enn frekari flótta. Þá hefur álag í starfi aukist mjög frá hruni án þess að starfsfólki hafi verið launað það á nokkurn hátt.

Ráðið fleiri lækna til starfa til að sinna skjólstæðingum HH. Starfsemin líður fyrir skort á læknum og ekki fyrirsjáanlegt að það breytist að óbreyttu.

Margt fleira mætti sjálfsagt tína til enda verkefni heilsugæslu óþrjótandi í samfélagi sem er í kreppu og vilji fagfólks HH mikill til að sinna sem best því fólki sem á þjónustunni þarf að halda. Það er því alvarlegt að stjórn HH skuli ekki standa með íbúum höfuðborgarsvæðisins og starfsfólki sínu og nýta allt sitt fjármagn í þágu starfseminnar en kjósa fremur að skila umtalsverðum hagnaði inn í ríkishítina. Er nema von að maður velti því fyrir sér hvort ekki sé eitthvað að í stjórnun stofnunarinnar?




Skoðun

Sjá meira


×