Skoðun

Borgin hefur ráðin í hendi sér

Snorri F.. Hilmarsson skrifar
Fréttablaðið hefur af gefnu tilefni fjallað um auð og eyðilögð hús í miðborginni að undanförnu.

Eins og Hjálmar Sveinsson bendir réttilega á í blaðinu fyrir helgi var sameining lóða hluti af átaki sveitarstjórnarmanna í Reykjavík til að laða fjárfestingu að miðborginni, losa um hömlur í skipulagi og auka byggingarmagn, oft með óraunhæfum hætti. Árangur þessarar stefnu birtist í þessum niðurlægðu húsum og er sýnilega á kostnað miðborgarinnar og þess sögulega umhverfis sem hún þrífst á.

Flest eiga umrædd hús það sammerkt að vera hluti af slíkum spákaupum með mögulegar risalóðir.

Sameining lóða hefur haft ýmsar neikvæðar afleiðingar fyrir miðborgina. Hún vinnur gegn þeim fjölbreytileika og smáa kvarða sem er styrkur byggðarinnar og tryggir henni líf og endurnýjun.

Svona þarf þetta ekki að vera. Um það bera svo mörg ágæt dæmi úr miðborginni skýrt vitni. Laugavegur 46 gengur nú í endurnýjun lífdaga. Sama hefur Þingholtsstræti 2 á horni Bankastrætis gert en einnig Laugavegur 2, 11, 21 og 56, á Bergstaðastræti, Klapparstíg, Lindargötu, Þingholtsstræti og listinn er lengri. Þetta er allt óeigingjarnt og rausnarlegt framlag einstaklinga, fjölskyldna og fyrirtækja til borgarinnar og allra sem hana byggja. Þar sem ekki er leyfð óheft beit sprettur blómgróður.

Það er því eðlilegt að borgaryfirvöld sjálf leggi gott til eins og gert hefur verið með svo miklum ágætum með uppbyggingunni í Aðalstræti, við Laugaveg og endurreisn húsanna við Lækjartorg. Hins vegar á ekki að þurfa bruna til að gera góða hluti í gamla bænum, það má líka taka til þar sem skipulagið hefur lent í blindgötu. Flest þessara húsa sem nú stinga í augu í niðurlægingu sinni gætu sem hægast orðið hin mesta staðarprýði fengju þau tækifæri til þess.

Borgarstjórn hefur undir höndum öll þau verkfæri sem þarf til að snúa taflinu við.

Verndun er því aðeins annað form uppbyggingar eins og dæmin sanna og er ekki til annars fallin en að auka gæði byggðarinnar. Verndun er líklegri til að koma betra jafnvægi á byggðina og gera hana að vettvangi betra mannlífs en stefnan um sameiningu lóða hefur hingað til leitt af sér.




Skoðun

Sjá meira


×