Skoðun

Ósigur skattgreiðenda

Kjartan Magnússon skrifar
Tónlistarhúsið Harpa er glæsilegt mannvirki enda um að ræða dýrasta hús Íslandssögunnar. Undarlegt er að á þeim tímamótum, sem opnun hússins er, virðast nokkrir af helstu fjölmiðlum landsins kjósa að fjalla einungis á jákvæðan hátt um húsið. (Hljómar kunnuglega.) Sumir fjölmiðlar einblína á viðbrögð ánægðra tónleikagesta en eru skattgreiðendur sáttir við að greiða stofn- og rekstrarkostnað í 35 ár? Full þörf er á að fjallað sé á gagnrýninn hátt um Hörpu eins og önnur verkefni og skattgreiðendur upplýstir um kostnað og óhjákvæmilega skuldadaga.



Í bæklingi um húsið, sem dreift hefur verið inn á hvert heimili, er ýtarlega fjallað um ýmsa þætti byggingarinnar en ekki minnst á kostnað. Í slíkum bæklingi hefði verið kjörið að upplýsa alþjóð um kostnað við bygginguna og heildarskuldbindingu skattgreiðenda. Skuldir hússins eru a.m.k. sá hluti þess, sem allir landsmenn munu eiga sameiginlega.

Harpa er dæmi um opinbert verkefni, sem stjórnmálamenn voru í upphafi fengnir til að styðja á grundvelli hóflegra kostnaðaráætlana en á síðari stigum hækkaði kostnaður upp úr öllu valdi.



Árið 1997 var rætt um að hægt væri að byggja gott tónlistarhús í Laugardal fyrir 1.550 milljónir króna. Árið 1998 hafði áætlunin hækkað í 2.500 milljónir og 1999 var hún komin í 3.500-4.000 milljónir. Í ársbyrjun 2002 var áætlað að húsið myndi kosta um 5.000 milljónir króna og árið 2003 var talan komin í 6.300 milljónir. Þegar hafist var handa við byggingu hússins var gert ráð fyrir því að byggingarkostnaður yrði um 12,5 milljarðar króna eða um 20 milljarðar að núvirði. Ekki liggja fyrir nýjar upplýsingar um heildarkostnað við bygginguna en hann er a.m.k. 28 milljarðar króna. Standist sú tala er fermetraverðið um ein milljón króna.



Vonandi standast yfirlýsingar aðstandenda hússins um að erlendir verktakar beri að mestu leyti kostnað vegna þegar framkominna galla við glerhjúp hússins. Málsmetandi arkitektar og verkfræðingar hafa þó lýst yfir áhyggjum yfir að mikil hætta sé á að frekari gallar muni koma í ljós, t.d. í stálvirki og gluggum hússins. Gott væri fyrir skattgreiðendur að vita hvort áhættumat hafi farið fram á byggingunni m.t.t. til slíkra galla.




Skoðun

Skoðun

Hin­segin réttindi til fram­tíðar

Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kristmundur Pétursson,Vera Illugadóttir,Jóhannes Þór Skúlason,Hannes Sasi Pálsson,Hrönn Svansdóttir,Sveinn Kjartansson skrifar

Sjá meira


×