Skoðun

Barnafjölskyldur standa verst

Eldey Huld Jónsdóttir skrifar
Hjálparstarf kirkjunnar hefur um árabil sinnt neyðaraðstoð bæði heima og erlendis. Nú þegar Íslendingar takast á við aukið atvinnuleysi, hækkandi verðlag og aukna skuldabyrði er þörfin fyrir aðstoð meiri en áður.

Undirrituð hóf starf sem félagsráðgjafi hjá innanlandsdeild Hjálparstarfsins vorið 2010 og hefur tekið þátt í að aðstoða hundruð fjölskyldna í mánuði hverjum. Mataraðstoð hefur sinn sess hjá okkur og hefur nú fengið nýjan farveg þar sem í stað matarpoka er barnafjölskyldum afhent inneignarkort í matvöruverslunum með ákveðinni upphæð eftir fjölskyldustærð. Lyfjakostnaður vegur þungt bæði hjá öryrkjum og öðrum sem takast á við tímabundin eða langvarandi veikindi og því er Hjálparstarfið að hlaupa undir bagga með tilfallandi lyfjakaupum.

Samkvæmt niðurstöðum kannana og tölfræði okkar hefur hópurinn sem þarf á aðstoð að halda breyst í kjölfar kreppunnar og niðurstöður sýna að barnafjölskyldur standa einna verst. Börn öryrkja, atvinnulausra, foreldra á framfærslu félagsþjónustunnar og síðast en ekki síst vinnandi foreldra á lágmarkslaunum standa í mörgum tilfellum höllum fæti. Því er lögð áhersla á það í starfi okkar að greiða götu þessara barna með margvíslegri aðstoð m.a. með sérstakri aðstoð í skólabyrjun fyrir börn í grunn- og framhaldsskóla, greiðslu skólagjalda og bókakaupum. Börn efnalítilla og/eða skuldsettra foreldra geta einnig fengið greiddar tómstundir. Nú í sumarbyrjun er hugað að afþreyingu fyrir börnin, skóla fer senn að ljúka og ekkert er skemmtilegra í vinnunni en að vita til þess að fólk og fyrirtæki sem leggja okkur lið með fjárframlögum gera okkur kleift að styðja við bakið á börnum í sumar. Börnum, sem annars hefðu ekki átt þess kost að taka þátt í tómstundaiðkun, fara í sumarbúðir, fá reiðhjól eða annað sem gleður þau og styrkir félagslega.

Hópur ungmenna í framhaldsskóla hefur einnig notið góðrar aðstoðar sem oftar en ekki hefur komið í veg fyrir að þau hafi flosnað úr skóla. Þessi hópur er að leggja grunn að framtíð sinni og þar er menntunin mikilvægasta fararnestið á fullorðinsárum. Ég vil nota tækifærið og hvetja landsmenn til góðrar þátttöku og leggja Hjálparstarfi kirkjunnar lið í söfnunarátakinu sem nú stendur yfir. Það er hægt m.a. með því að greiða valgreiðslur í heimabönkum og fylgjast með fræðslu- og söfnunarþætti um fátækt á Stöð 2 26. maí.




Skoðun

Sjá meira


×