Skoðun

Tillaga að sameiningu

Kolbrún Björt Sigfúsdóttir skrifar
Oft hef ég heyrt því fleygt að unga fólkið beri enga virðingu fyrir gamla fólkinu í landinu. Ef svo væri, og ég er ekki að segja að svo sé, væri þá ekki upplagt að gera því kleift að kynnast gömlu fólki betur?

Nú er mikið talað um sameiningu leikskóla og sameiningu leikskóla við grunnskóla. Ég er með betri hugmynd. Af hverju sameinum við ekki leikskóla og elliheimilin? Þannig myndum við tryggja samskipti yngri og eldri kynslóða, lífga upp á dag ellilífeyrisþeganna og auðga menningarlegan arf barnanna okkar. Hóparnir gætu hjálpað hvor öðrum, þau eldri lesið fyrir þau yngri, þau yngri sungið fyrir þau eldri og svo framvegis.

Pælum aðeins í þörfum hópanna tveggja: Báðir vakna mjög snemma. Báðir borða svipaða fæðu (allavega á stofnunum). Báðir þurfa hvíld yfir daginn. Báðir eru skikkaðir í föndur og leiki yfir daginn, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Geta elstu leikskólabörnin ekki spilað bingó? Hafa gamlingjarnir ekki gaman af sögustund?

Nú er enginn að segja að sama prógramm þyrfti að vera allan daginn fyrir báða hópa, líkt og tveggja ára börn eru ekki í sama prógrammi og fimm ára börn á leikskólum í dag. En þó nokkuð mætti gera í sameiningu, báðum hópum til gleði. Ég er þess fullviss að meiri ánægja yrði með þetta fyrirkomulag en með því að hafa tveggja ára börn og tólf ára börn á sama leikvellinum. Sameining elliheimila og leikskóla er í það minnsta ekki heimskulegri en hvað annað.




Skoðun

Sjá meira


×