Skoðun

Mikilvægur stuðningur við nýja stofnun SÞ

Aðalheiður Inga Þorsteinsdóttir skrifar
Ný stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna, UN Women, tók formlega til starfa fyrr á þessu ári. Hún varð til við sameiningu fjögurra stofnana innan SÞ sem fengist höfðu við jafnréttismál, en þeirra stærst var Þróunarsjóður Sameinuðu þjóðanna fyrir konur, UNIFEM.



Lengi hafði verið rætt um að efla þyrfti starf Sameinuðu þjóðanna við að bæta réttindi og stöðu kvenna, enda höfðu stofnanirnar sem UN Women byggir á umtalsvert minni fjárráð, mannafla og aðkomu að ákvarðanatöku en margar sambærilegar stofnanir innan SÞ kerfisins. Miklar vonir eru því bundnar við tilkomu UN Women, sem ætlað er að hafa stóraukin umsvif og áhrif. Víst er að verkefnin eru bæði næg og brýn, sér í lagi í þróunarlöndum og á stríðshrjáðum svæðum.



Starfsemi UN Women byggir að verulegu leyti á frjálsum framlögum aðildarríkja SÞ. Íslendingar voru meðal dyggustu stuðningsþjóða UNIFEM, bæði hvað varðar málefnalegan stuðning og fjárframlög miðað við höfðatölu. Áætlun sem fyrir liggur um alþjóðlega þróunarsamvinnu gerir ráð fyrir að Ísland muni áfram standa ötullega að baki UN Women og óskandi er að það gangi eftir.



Sem fyrrverandi starfsmaður í höfuðstöðvum UNIFEM í New York og núverandi ráðgjafi hjá UN Women hef ég kynnst mikilvægi þess starfs sem unnið er á vegum stofnunarinnar um allan heim. Þegar þetta er ritað rekur UN Women 15 heimshlutamiðstöðvar og samtals um 60 verkefnaskrifstofur í samstarfslöndum, þar sem stofnunin veitir fjárhagslega og tæknilega aðstoð til að bæta lagalega og samfélagslega stöðu kvenna, í samvinnu við yfirvöld, kvennahreyfingar og frjáls félagasamtök.



Aðildarríki SÞ hafa markað hinni nýju stofnun áherslusvið, en þau eru barátta gegn kynbundnu ofbeldi; stuðningur við þátttöku kvenna í friðarferlum og uppbyggingu eftir átök; stuðningur við þátttöku kvenna í stjórnmálum og athafnalífi; efling efnahagslegrar stöðu kvenna; aðstoð við að samþætta kynjasjónarmið í hagstjórn og áætlanagerð; stuðningur við ríki til að uppfylla skuldbindingar þeirra samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum; og loks kynjajafnrétti sem hluti af Þúsaldarmarkmiðum SÞ.



Jafnframt er UN Women ætlað að gegna mikilvægu hlutverki við þekkingaröflun, samhæfingu og stefnumótun, sem leiðandi stofnun á sviði jafnréttismála innan SÞ, auk þess að hafa eftirlit með því hvernig alþjóðasamfélaginu gengur að framfylgja settum markmiðum.



Fyrir Alþingi liggur tillaga til þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir tímabilið 2011-2014. Það er vel að UN Women er þar tilgreind sem ein af fjórum lykilstofnunum í marghliða þróunarsamvinnu Íslands, ásamt Alþjóðabankanum, UNICEF og Háskóla SÞ. Auk þess eru jafnrétti og umhverfismál skilgreind sem þverlæg málefni, sem allt þróunarstarf skuli taka mið af. Bent er á að reynslan sýni að þróunarsamvinna sem grundvallast á jöfnum rétti og þátttöku kvenna og karla, og tekur tillit til hagsmuna og sjónarmiða beggja kynja, sé líklegri til að skila varanlegum árangri.



Í umsögn sinni til þingsins lýsti Landsnefnd UN Women á Íslandi almennri ánægju með áætlunina og þá áherslu sem þróunarsamvinna fær í utanríkisstefnu Íslands. Ég vil hvetja þingmenn til að fylkja sér að baki áætluninni um alþjóðlega þróunarsamvinnu eins og hún liggur fyrir, og tryggja að Ísland leggi sitt lóð á vogarskálarnar til þess að UN Women megi verða það hreyfiafl í jafnréttismálum sem vonir standa til.




Skoðun

Sjá meira


×