Skoðun

Um tryggingsvik

Jón Jónsson skrifar

Í grein í Fréttablaðinu nýlega skrifar Vigdís Halldórsdóttir um tryggingasvik. Hún vísar til kannana sem gerðar hafa verið af Capacent-Gallup, þar sem ýmsar niðurstöður eru tíundaðar. Það eru alvarlegar ásakanir sem hún ber á viðskiptavini tryggingafélaga án nokkurra sannana. Í þessari grein víkur hún aðeins að annarri hlið tryggingasvika, þ.e. viðskiptavina gegn tryggingafélagi. Hún gerir sér kannski ekki grein fyrir því, að stærstu svikin eru tryggingasvik tryggingafélaganna gegn viðskiptavinum!

Ég er menntaður bifvélavirki og þekki því marga í þeirri stétt, þar með talda bílasmiði og bílamálara. Fyrir um áratug tóku tryggingafélögin samtímis upp svokallað „Cabas"-tjónamatskerfi. Það samráð tryggingafélagana er brot á samkeppnislögum! Þetta „Cabas"-kerfi hefur sett þónokkur verkstæði á hausinn og það alvarlegasta: hefur stuðlað að lélegum og óvönduðum vinnubrögðum í viðgerðum tjónabíla, þar sem verkstæðin eru beitt þrýstingi til að halda viðgerðarkostnaði niðri og verða helst að klára bíla á innan við fimm dögum vegna bílaleigubíla sem viðskiptavinir eiga rétt á, en aðeins í fimm daga! Mín persónulega reynsla af tjónum sem valdið hefur verið á mínum eigin bílum og tryggingafélög hafa átt að bæta er að ég hef ALDREI fengið þau bætt að fullu!

Ég hef líka heyrt þess dæmi að tveir aðilar að árekstri bíla hafa BÁÐIR verið dæmdir í órétti án þess að vita um rétt hvor annars! Þannig hafa tryggingafélögin haft samráð um að greiða engar bætur í slíkum tilfellum! Mér finnst að Vigdís ætti að láta Capacent-Gallup gera tvær kannanir í viðbót: annars vegar spyrja eigendur verkstæða um reynslu af viðgerðum fyrir tryggingafélög og hins vegar viðskiptavini sem hafa þegið bætur eða látið gera við bíla sína á vegum tryggingafélaga. Það væri áhugavert að sjá niðurstöður slíkra kannana. Ég gæti trúað að svik tryggingafélaga gagnvart viðskiptavinum og verkstæðiseigendum séu miklu meiri en „meint svik" viðskiptavina gagnvart tryggingafélagi sínu.

 




Skoðun

Sjá meira


×